Greinin birtist fyrst þann 8. september 2020
Undanfarin ár hef ég ítrekað gert tilraun til að vekja athygli stjórnvalda á því ástandi sem ríkt hefur um árabil á fjölskyldusviði sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu. Ástandi sem bitnar harkalega á börnum en því miður þá fylgja efndir ekki fögrum orðum stjórnvalda um úrbætur.
Mér varð hugsað til þessa þegar ég sá auglýsingamyndband dómsmálaráðherra sem dreift er á samfélagsmiðlum þessa dagana. Þar er sérstaklega vikið að fjármagni til sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu til að stytta málsmeðferðartíma á fjölskyldusviði og ákvað ég því að skoða framfarirnar vegna aðgerða ráðherra. Hvort eitthvað væri að þokast í átt að mannúðlegri málsmeðferð í málefnum barna hjá embættinu.
Nú má ekki misskilja mig á þann hátt að ég telji starfsfólk fjölskyldusviðs ekki vera að sinna sínum störfum, heldur hef ég einfaldlega bent á að undanfarin ár hefur embættið og þá sérstaklega fjölskyldusviðið verið það undirmannað að það hafi bitnað verulega á hagsmunum og réttindum barna.
Rétt er að rifja upp að fjölskyldusvið annast hvers kyns ágreiningsmál er varða forsjá og lögheimili barna, umgengni og meðlag en einnig ættleiðingarmál af öllu landinu sem og mál er varða andlát og dánarbú. Eins og staðan er í dag, í byrjun septembermánaðar 2020, þá hafa mál sem bárust embættinu um forsjá, lögheimili og umgengni eftir 12. mars sl. enn ekki verið tekin til umfjöllunar. Þetta þýðir að ef foreldra greinir á um t.d. umgengni barns við annað foreldri eða hvar barn á að búa og hafa leitað með þann ágreining til sýslumanns þann 13. mars sl. þá hefur málið ekki enn komist til fulltrúa til fyrsta fundar. Við verðum einnig að hafa í huga að þegar mál komast loksins til fulltrúa sýslumanns, eftir a.m.k. 6 mánaða bið, þá taka við nokkrir fundir með foreldrum, ýmist saman eða hvoru í sínu lagi. Ef ekki tekst að sætta mál hjá fulltrúa tekur við sáttameðferð hjá sáttamanni. Í barnalögum verður að hafa sótt sáttameðferð áður en úrskurðar eða dóms er krafist um forsjá, lögheimili, umgengni, dagsektir eða aðför. Foreldrar hafa ekki val heldur verða þau að fara í sáttameðferð. Á landinu öllu eru nú fimm stöðugildi sáttamanns en voru til 1. ágúst sl. fjögur. Fimm stöðugildi í 360 þúsund manna samfélagi. Þessi ákvörðun stjórnvalda leiðir til þess að mál á fjölskyldusviði sem varða börn, og bárust eftir 16. október 2019, eða síðastliðna 11 mánuði, hafa ekki enn verið tekin til umfjöllunar hjá sáttamönnum. Þau eru bara á bið. Það blasir við að grunntengslamyndun barns sem ekki fær að vera í reglulegri umgengni við foreldri sitt skaðast varanlega á þessum langa tíma og þar bera stjórnvöld ábyrgð. Stjórnvöld verða að gera betur þegar kemur að þessum málaflokki. Ekki láta börnin bíða.