Að velja að nýta ekki mannauð heilbrigðiskerfisins

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 27. febrúar 2021

Á dögunum spurði ég heilbrigðisráðherra út í það dæmalausa ástand sem uppi er vegna skimunar á leghálskrabbameini hér á landi. Þessi tilfærsla þjónustu frá Krabbameinsfélaginu hefur staðið yfir í tvö ár og ekki tekist betur til en svo að upplýsingaveita er óboðleg og framkvæmdin óskiljanleg hvort tveggja fagaðilum sem almenningi. Heilbrigðisstarfsfólk stígur fram eitt af öðru og lýsir furðu sinni yfir framkvæmdinni og ber þá að geta að þau eiga ekki annarra hagsmuna að gæta en faglegrar þekkingar og reynslu.

Við í velferðarnefnd Alþingis höfum beðið minnisblaðs um framkvæmd skimana í á annan mánuð og í nokkrar vikur eftir afhendingu samninga vegna rannsókna erlendra rannsóknarstofa á íslenskum sýnum. Ég tel mikilvægt að fá útskýringar á hvers vegna ekki er notast við innlenda rannsakendur enda meginreglan að sýni séu rannsökuð hér á landi. Sérfræðingar segja slíkt fyrirkomulag tryggja skjótari afgreiðslu, meira öryggi og hagkvæmni. Með þeirri ákvörðun heilbrigðisráðherra að færa rannsóknir út fyrir landsteinanna er gengið framhjá innlendu fagfólki og ný og góð tæki heilbrigðiskerfisins vannýtt.

Ég spurði heilbrigðisráðherra um það í þinginu hvers vegna væri farin sú leið að sniðganga íslenskt heilbrigðisstarfsfólk hvað þetta varðar, hvort hún treysti ekki íslensku heilbrigðiskerfi til að framkvæma þessar rannsóknir með fullnægjandi hætti.

Heilbrigðisráðherra svaraði því til að mikilvægt væri að tala ekki niður opinbera heilbrigðiskerfið [!] en sagði þetta snúast um öryggi. Vert er að benda á að við undirbúning flutnings þjónustunnar var leitað til skimunarráðs sem sagði veirurannsóknir þessar geta verið gerðar á veirufræðideild Landspítala enda sé þar „fullkominn búnaður og þekking til HPV-greininga“. Sama lagði verkefnisstjórn sem kom að flutningnum til. Í viðtali við yfirlækni meinafræðideildar Landspítala kom fram að biðtími eftir niðurstöðu þar sé styttri en á sambærilegum rannsóknarstofum á Norðurlöndum. Það sé því óþarfi að senda sýni úr landi þegar hægðarleikur sé að sinna þessu hér. Meinafræðideildin hafi hins vegar ekki verið spurð enda virðast stjórnvöld frekar vilja nýta erlenda rannsakendur með tilheyrandi óhagræði. 

Við eigum mikinn mannauð í íslenska heilbrigðiskerfinu með yfirgripsmikla þekkingu sem heilbrigðisráðherra velur að líta framhjá við þjónustu af þessu tagi. Þetta eru ekki góð skilaboð til íslensks fagfólks eða ungs fólks sem nú hugar að framtíðarmenntun sinni. Til hvers að mennta sig í flóknum fræðum þegar stjórnvöld velja að ganga fram hjá fagfólki innanlands? Fagfólki sem við höfum tekið þátt í að mennta, tækjum sem við höfum í sameiningu greitt. Hvers vegna velja stjórnvöld að leita annað með tilheyrandi óvissu og óhagræði?

Æviágrip á vef Alþingis

Smelltu hér til að skoða æviágrip á vef Alþingis
Opna

Fylgstu með

Skráðu þig á póstlistann hjá mér og fylgstu með þeim málefnum sem ég er að vinna að hverju sinni.
Skrá mig
linkedin facebook pinterest youtube rss twitter instagram facebook-blank rss-blank linkedin-blank pinterest youtube twitter instagram