Við lifum hér og störfum eftir ákveðnum leikreglum. Lög og reglur eru samin um allt milli himins og jarðar, hvort sem um er að ræða hversu mikið má veiða, hversu hratt má keyra, hvernig framkvæma skal heilbrigðisþjónustu eða hversu stór aðili á markaði fyrirtæki má vera. Já, það er þessi rammi sem skiptir máli þegar samfélag er rekið og til að fá okkur öll til að fara eftir reglunum þá verðum við að hafa það á tilfinningunni að það gildi það sama um alla og að eftirlit sé með þeim kerfum sem við höfum tekið ákvörðun um að skapa.
Hvers vegna þessi langloka? Jú vegna þess að á þessu kjörtímabili hefur því miður komið ítrekað í ljós lítill vilji ríkisstjórnarinnar til að efla hér eftirlit og þær stofnanir sem annast eiga eftirlit. Skemmst er að minnast skýrslu ríkisendurskoðunar um fall flugfélagsins WOW og það hvernig sú eftirlitsstofnun sem átti að fylgjast með flugrekstrarhæfi félagsins, Samgöngustofa, virðist hafa sofið á verðinum þegar kom að lögbundnu hlutverki sínu, að hafa eftirlit með fjárhag félagsins. Önnur skýrsla ríkisendurskoðunar á kjörtímabilinu sneri að Fiskistofu og hversu vanmáttug hún er, vegna vanfjármögnunar stjórnvalda. Stjórnarþingmenn fara svo fremstir í flokki að tala niður Samkeppniseftirlitið, eins mikilvægt og það er fyrir almenning í landinu.
Á dögunum spurðumst við í velferðarnefnd Alþingis fyrir um eftirlit embættis landlæknis með heilbrigðisþjónustu, en lögum samkvæmt ber embættinu að hafa eftirlit með heilbrigðisþjónustu og heilbrigðisstarfsmönnum. Skal það hafa eftirlit með hvorki fleiri né færri en tvö þúsund rekstraraðilum heilbrigðiskerfisins, hvort sem um er að ræða einkareknar stofur lækna og sjúkraþjálfara, þriðja geirann eins og SÁÁ og Hrafnistu eða Landspítala – háskólasjúkrahús. Því mætti ætla að eftirlitsdeild embættis landlæknis, sem hefur með svona vandasamt verkefni að gera, væri fjölmenn og gríðarlega öflug enda er um að ræða mikilvægt eftirlit sem varðar þjónustu, líf og heilsu allra landsmanna. Þjónustu sem verður að fara fram eins og best verður á kosið. Því vakti það undrun mína þegar í ljós kom að eingöngu fjórir starfsmenn embættisins eiga að sinna öllu þessu mikilvæga eftirliti, með öðrum störfum sínum. Við spurðumst fyrir um þetta vegna umræðu undanfarinna vikna um að því er virðist óboðlegar aðstæður og mögulegt brot á réttindum sjúklinga á réttar- og öryggisgeðdeildunum á Landspítala, Kleppi. Þær frásagnir sem við höfum fengið af aðstæðum, framkomu gagnvart veiku fólki sem þar dvelur gera mann í senn sorgmæddan og reiðan.
Við sem samfélag verðum að gera betur og verðum að tryggja að lögum og reglum sé fylgt. Til þess þurfum við að styrkja og fjármagna eftirlitsstofnanir.