Áfram Ísland á stórmótum!

Í þinglokum nú fyrir sumarhlé Alþingis var borin upp þingsályktunartillaga Samfylkingar um að fela mennta- og menningarmálaráðherra að setja á laggirnar launasjóð fyrir afreksíþróttafólk í einstaklings- og hópíþróttum. Tilgangur slíks sjóðs væri að auka fjárhagslegt öryggi afreksíþróttafólks hér á landi og auka möguleika þess til að helga sig íþróttastarfi sínu, ekki síst í aðdraganda stórmóta. Árum saman hefur verið kallað eftir viðlíka stuðningi en með því að láta þennan launasjóð verða að veruleika og greiða með því afreksíþróttafólki starfslaun tímabundið, aukast réttindi þess og öryggi.

Eftir íþróttaferilinn stendur margt íslenskt afreksíþróttafólk uppi með skuldir og réttindalaust. Afreksíþróttafólk nýtur ekki lífeyrisréttinda, stéttarfélagsaðildar, aðgengis að sjúkra- og starfsmenntasjóði, né réttinda til fæðingarorlofs svo eitthvað sé nefnt einfaldlega vegna þess að sá stuðningur sem það þó getur fengið í formi styrkja frá fyrirtækjum telst ekki sem laun heldur styrkur.

Afreksíþróttafólk á Íslandi hefur ítrekað reynt að ná eyrum stjórnvalda en ekki átt erindi sem erfiði og þess vegna var það einstaklega ánægjulegt að í lok þings skyldi vera samþykkt samhljóða að fela mennta- og menningarmálaráðherra að ráðast í undirbúning að slíku. Í yfirlýsingu frá afreksíþróttafólki fyrr á árinu kemur fram að þrátt fyrir ítrekaða áskorun til stjórnvalda undanfarin ár hafi ekkert verið aðhafst í kjara- og réttindamálum afreksíþróttafólks á Íslandi. Mikilvægi þessa sjóðs hefur aukist í kórónuverufaraldri vegna verri stöðu ýmissa fyrri styrktaraðila sem aðstoðuðu íslenskt afreksfólk við að komast á stórmót erlendis en slíkur stuðningur hefur þó nánast alfarið einskorðast við stuðning við beinan kostnað við ferðirnar, svo sem flugmiða og gistingu, en ekki laun á undirbúningstíma. Það að íslenskt afreksíþróttafólk mæti keppinautum á stórmótum, sem með stuðningi ríkja sinna hafa atvinnu af íþróttaiðkun sinni, gerir baráttu íslensks afreksfólks á slíkum mótum erfiðari enda þarf það iðulega að æfa fyrir stórmót meðfram sínu launaða starfi.

Fyrirmynd að launasjóði afreksíþróttafólks má finna hvort tveggja í launasjóði stórmeistara í skák sem og launasjóði listamanna. Þar sækja þeir um sem hafa tiltekið verkefni fyrir höndum og ekki önnur launuð störf samhliða. Þannig kæmi ekki til að atvinnumanneskja á fullum launum sækti jafnframt í þennan starfssjóð enda tíðkast það ekki í öðrum sambærilegum sjóðum. Þetta er langt í frá ný hugmynd enda um þetta fyrirkomulag rætt í skýrslu vinnuhóps um endurskoðun á reglum afrekssjóðs ÍSÍ frá árinu 2017 en loksins mjakast þetta mál áfram eftir stuðning alls þingheims við þessa tillögu Samfylkingarinnar og því ber að fagna.

helgavala@althingi.is

Æviágrip á vef Alþingis

Smelltu hér til að skoða æviágrip á vef Alþingis
Opna

Fylgstu með

Skráðu þig á póstlistann hjá mér og fylgstu með þeim málefnum sem ég er að vinna að hverju sinni.
Skrá mig
linkedin facebook pinterest youtube rss twitter instagram facebook-blank rss-blank linkedin-blank pinterest youtube twitter instagram