Í aðdraganda kosninga kom ítrekað fram að bág staða heilbrigðiskerfisins væri aðal kosningamálið í huga almennings. Þrátt fyrir þetta var sáralítið um það rætt í þeim umræðuþáttum sem fram fóru og því gátu kjósendur illa kynnt sér þá stefnu og framtíðarsýn sem flokkarnir höfðu varðandi rekstur þessarar mikilvægu grunnstoðar samfélagsins. Kjósendur fengu jú að vita að tveir af þremur stjórnarflokkum vilja auka einkarekstur í heilbrigðiskerfinu en lítið var um það spurt í samtölum við forsvarsmenn þriðja stjórnarflokksins sem farið hefur með heilbrigðismál á kjörtímabilinu. Þá var lítið ef eitthvað rætt um heildarsýn flokkanna á verkefnið. Kjósendur heyra nú fjórum vikum eftir kosningar af því að tveir af þremur stjórnarflokkum vilja ekki að þriðji flokkurinn stjórni ráðuneyti heilbrigðismála. Með öðrum orðum þýðir þetta að þeir vilja að sama ríkisstjórn haldi áfram en breyti stefnu stjórnarinnar í þeim málaflokki sem tekur til sín fjórðung af útgjöldum ríkissjóðs og snertir hvern einasta íbúa landsins. Hverju eigi að breyta er þó með öllu ósvarað.
Heilbrigðiskerfið er fjöregg þjóðarinnar. Við þurfum öll á einhverjum tímapunkti á heilbrigðiskerfinu að halda og þurfum að treysta á að það virki vel. Þau sem best þekkja til virkni og gæða heilbrigðiskerfisins eru eðli málsins samkvæmt það fólk sem þar starfar. Það áttar sig bæði á þeim verkefnunum sem þarf að sinna og þeim aðstæðum sem notendum heilbrigðiskerfisins og starfsfólki er boðið upp á.
Þess vegna skiptir öllu máli að stjórnvöld hvers tíma hlusti þegar bent er á brotalamir kerfisins. Því miður hefur borið á því að ráðherrar hafi á undanförnum árum brugðist við með hálfgerðum skætingi þegar starfsfólk og aðstandendur lýsa ófullnægjandi ástandi í heilbrigðiskerfinu. Heilbrigðisráðherra sagði það sérstaka áskorun fyrir sig sem ráðherra að standa með Landspítalanum þegar starfsfólk hans leyfði sér að segja upphátt frá reynslu sinni og hættuástandi innan spítalans og fjármálaráðherra sagði í aðdraganda kosninga að starfsfólk heilbrigðiskerfisins yrði einfaldlega að auka virkni sína. Þá kvaðst hann, aðspurður vegna mjög erfiðrar stöðu á bráðamóttöku Landspítala í vikunni, einfaldlega ekki sjá neitt ástand á bráðamóttöku sem kæmi stjórnvöldum við þegar afléttingar sóttvarnarreglna væru annars vegar.
Almenningur finnur sárlega fyrir því þegar kerfið virkar illa. Umönnunarbyrði almennings á Íslandi á veikum skyldmennum er sú mesta sem þekkist í Evrópu. Vanvirkni fólks vegna langra biðlista eftir úrræðum skaðar samfélagið á svo marga vegu. Á meðan vikurnar líða án aðkomu Alþingis fer aðhald við ríkisstjórnina eingöngu fram í fjölmiðlum og þar verðum við öll að standa saman.