Þetta ár hefur reynt á samstöðu þjóðar, reynt á náttúruna og samfélög um allan heim. En það hefur líka reynt á pólitíkina, á Alþingi og ríkisstjórn sem oft og tíðum hefur verið býsna ósamstiga, sér í lagi í stórum og mikilvægum verkefnum er varða framtíð þjóðarinnar.
Þetta var árið þar sem forsvarsfólk Vinstri grænna tók ákvörðun um að breyta íslenskri pólitík. Sumum þar innanbúðar kann að þykja það sérstök vegsemd en fyrir þau okkar sem hafa meiri framtíðarsýn fyrir íslenskt samfélag en það eitt að breyta flokkapólitíkinni var þetta árið þar sem stigið var skref til baka en ekki til framþróunar. Þessi breyting birtist í áframhaldandi stjórnarsamstarfi Vinstri grænna við Sjálfstæðisflokk sem starfar á hægri væng íslenskra stjórnmála og stendur fyrir frjálshyggju en ekki félagshyggju.
Það er því rétt sem einn stofnenda og fyrrverandi ráðherra Vinstri grænna, Ögmundur Jónasson, segir í nýútkominni bók sinni, að réttast væri að Vinstri græn breyttu nafni sínu þannig að þau tækju út orðin vinstri og græn, því hvort tveggja hefur fengið að víkja fyrir hinum svokallaða pólitíska stöðugleika sem leiðir ekki til framþróunar íslensks samfélags heldur stöðnunar. Stóru málin sem Vinstri græn voru stofnuð um, sem skiptu að sögn þeirra sköpum um þátttöku flokksins í síðustu ríkisstjórn, hafa nú verið færð öðrum flokkum fyrir það eitt að leiðtogi flokksins fái áfram að sitja í stjórnarráðinu. Meint afsökun stjórnarsamstarfsins á síðasta kjörtímabili, að hér hafi ríkt stjórnarkreppa, er rækilega hrakin með áframhaldandi samstarfi við íhaldið. Þetta var engin stjórnarkreppa og það vissu þau vel sem innan stjórnmálanna störfuðu, enda var ásetningur forsvarsmanna Vinstri grænna ætíð sá að komast nú loks í samstarf með fyrirheitna flokknum í Valhöll. Eftir situr félagshyggjufólk, sem hugsar og starfar frá miðju til vinstri, og klórar sér í kollinum yfir því hvað hafi orðið um metnaðinn og stóru orðin.
Langstærsta verkefni stjórnmálanna er ekki að viðhalda pólitískum stöðugleika heldur samfélagslegri velferð. Þeim samfélögum sem leggja áherslu á jöfnuð farnast best. Það næst aðeins með alvöru aðgerðum þar sem tekjum og útgjöldum ríkisins er beitt með jöfnuð að leiðarljósi. Þá verðum við án tafar að bregðast við stærstu heilsufarsvá samtímans, geðrænum áskorunum, sem varað var við að myndu aukast í heimsfaraldri. Þar duga engin smáskref og því slæmt að ekki fékkst samþykki stjórnarliða fyrir tillögum samstiga stjórnarandstöðu við afgreiðslu fjárlaga um að fjármagna niðurgreiðslu sálfræðiþjónustu. Geðheilbrigði verður að njóta forgangs næstu misseri og við getum gert þar bragarbót með samstöðu stjórnar og stjórnarandstöðu. Þar höfum við verk að vinna og skulum gera þetta saman.