Dánaraðstoð snýst um lífsvirðingu

Annað kvöld fer fram fundur á vegum Lífsvirðingar, félags um dánaraðstoð. Þar mun Staffan Bergström, sænskur læknir og fyrrum prófessor, fjalla um nálgun sína og aðkomu að dánaraðstoð. Rétt er að greina frá að ég hef engin tengsl við Lífsvirðingu og er því ekki að auglýsa umræddan atburð fyrir þeirra hönd heldur vil ég vekja athygli á mikilvægi þeirrar umræðu og fræðslu sem Lífsvirðing stendur fyrir. Réttur fólks til að deyja með reisn er afar mikilvægur, ekki síst á okkar tímum þegar læknavísindin hafa náð jafn miklum framförum og raunin er. Með framförum er okkur gert kleift að lifa lengur og við betri heilsu, en jafnframt lengja líf fólks sem glímir við mikil og erfið veikindi árum og jafnvel áratugum saman.

Sum veikindi er hægt að lækna, öðrum halda í skefjum. En sum veikindi skerða svo mjög lífsgæði fólks að þrátt fyrir læknavísindin fara lífsgæðin hratt þverrandi. Dánaraðstoð er heimiluð í nokkrum ríkjum heims nú nýverið á Spáni. Það þarf lagabreytingu eigi að heimila dánaraðstoð hér á landi en fyrst og fremst þarf að eiga sér stað umræða á víðara stigi því mikill meirihluti landsmanna, eða nærri 80% virðist fylgjandi dánaraðstoð skv. Könnun Maskínu frá árinu 2019.

Um tíu ára skeið, til ársins 2015, var starfrækt á vegum embættis Landlæknis svokölluð Lífsskrá, eða lífsviljaskrá. Þar gat fólk skráð inn vilja sinn til læknisfræðilegs inngrips en ókosturinn var skráin var ekki á tölvutæku formi og því ekki hægt að nálgast vilja þeirra sem skráðu sig í lífsskrána nema á dagvinnutíma starfsfólks embættisins. Þá var jafnframt allur gangur á því hvort fólk uppfærði skrána. Þetta tvennt, lífsviljaskrá og dánaraðstoð er nauðsynlegt að ræða í nútímasamfélagi og má velta fyrir sér hvort ekki sé rétt að hefja undirbúning mögulegrar lagasetningar hér líkt og þekkist í nágrannalöndum.

Í þeim ríkjum sem heimila dánaraðstoð er það eingöngu í höndum lækna að veita slíka aðstoð og þá byggða á sjúkdómsgreiningu. Er bakgrunnur sjúklings kannaður og það hvort ósk sjúklingsins sé vel ígrunduð og sjúklingurinn með fullu ráði. Aldrei er um skyndiákvörðun að ræða enda þarf sjúklingurinn að eiga fleiri en eitt samtal við lækni sinni og getur á hverjum tímapunkti dregið ósk sína tilbaka. Að því ég best veit er það eingöngu í Sviss þar sem fólk sem ekki er búsett í landinu getur fengið aðstoð og ítrekað er að læknar eru ekki skuldbundnir til að veita dánaraðstoð heldur er hún veitt að vandlega ígrundaðri skoðun læknis á heilsu sjúklings.

Dánaraðstoð snýst um mannúð og lífsvirðingu. Við þurfum að opna umræðuna, við á Alþingi taka við keflinu og halda áfram veginn í átt að lífsvirðingu og mannúð við lífslok.  

Æviágrip á vef Alþingis

Smelltu hér til að skoða æviágrip á vef Alþingis
Opna

Fylgstu með

Skráðu þig á póstlistann hjá mér og fylgstu með þeim málefnum sem ég er að vinna að hverju sinni.
Skrá mig
linkedin facebook pinterest youtube rss twitter instagram facebook-blank rss-blank linkedin-blank pinterest youtube twitter instagram