Að undanförnu höfum við verið svo lánsöm að fá leiðsögn færustu sérfræðinga til varnar almenningi. Það er ekki lítils virði og sjálfsagt heldur feikilega mikilvægt samfélaginu. Þegar þessi orð eru rituð er boðuð rauð veðurviðvörun á höfuðborgarsvæði og Suðurlandi og ef svo ólíklega vill til að blaðið berist inn um lúgur að morgni má ætla að veðrið sé að hámarki á höfuðborgarsvæðinu um það leyti sem blaðið snertir dyramottuna.
Almannavarnir er skv. orðskýringum samnefnari um varnir, viðbúnað, viðbrögð og endurreisn, eða það skipulag sem verður að vera til staðar fyrir neyðarástand og miðar að því að verja borgarana fyrir hættum frá náttúru, af mannavöldum eða vegna tæknibilana. Við höfum heldur betur verið með almannavarnir allt um kring í glímu okkar við heimsfaraldurinn en síðustu daga hefur vísindafólk greint aðra hættu, sjálft ofsaveðrið.
Ég er svo dúpt þakklát því fólki sem hefur helgað sig vísindum, því það getur aðstoðað okkur við undirbúning og viðbrögð við ýmsum hættum en svo er það stjórnvalda að koma að endurreisn. Ég hef hvorki hundsvit á veðri né heilbrigðisvísindum og treysti því leiðsögn okkar fagfólks þegar við almenningur þurfum að hegða okkur á einn eða annan hátt okkum sjálfum til heilla. Við sýnum ýtrustu varkárni svo við þurfum ekki að treysta á neyðarvakt heilbrigðiskerfis og almannavarna.
Það er hins vegar stjórnvalda að byggja upp innviði sem þola áhlaup líkum þeim sem við höfum verið að glíma við. Áhlaup farsóttar kallar á sterka innviði í heilbrigðiskerfinu og þegar stjórnarliðar segja heilbrigðiskerfið okkar hafa staðist prófið í heimsfaraldri þá er eingöngu verið að miða við fjölda dauðsfalla vegna Covid en ekki dauðsföll sem leiða má af Covid ástandi vegna annarra sjúkdóma. Þá er heldur ekki verið að miða við það að heilbrigðiskerfið hafi ekki getað sinnt nauðsynlegum aðgerðum til bjargar mannslífum og til að lina þjáningar vegna annarra sjúkdóma því biðlistar hafa aldrei verið lengri um allt heilbrigðiskerfið og starfsfólkið líklega aldrei nær örmögnun eftir hlaupin.
Í veðurofsa reynir á annars konar innviði, svo sem flutningskerfi raforku, vegakerfið, almenningssamgöngur og fjarskiptakerfið. Þar höfum við á undanförnum árum orðið vitni að verulega löskuðu kerfi innviða sem stjórnvöld verða að laga. Mikilvægar stofnanir eins og heilbrigðisstofnanir hafa misst rafmagn, byggðakjarnar hafa verið án rafmagns og fjarskipta og þéttbýlisstaðir einangraðir vegna snjóflóða þar sem jarðgöng skortir.
Sem betur fer erum við viðbúin fyrir hvellinn og eigum að gera allt sem við getum til varnar okkur og samfélaginu. Ég vil þakka þeim fjölmörgu sem mynda almannavarnir á Íslandi því án ykkar værum við í verulegum vanda.