Er upplifunin vandamálið?

Það hefur verið athyglisvert að fylgjast með viðbrögðum ráðherra vegna harðrar gagnrýni á framkvæmd sölu á hlut almennings í Íslandsbanka. Afstaða ráðherra, allra nema innviðaráðherra sem ekki hefur náðst í síðustu vikur, hefur breyst frá degi til dags og er nú um það rætt að fram fari gaslýsing af áður óþekktri stærðargráðu af þeirra hálfu. Auðmjúk birtust þau Katrín og Bjarni eftir birtingu kaupendalista, sögðust vilja velta við hverjum steini, að salan yrði rannsökuð að forskrift fjármálaráðherra og að þangað til niðurstaða fengist yrði beðið með frekari aðgerðir.

Á þriðjudegi eftir páska birtist fréttatilkynning frá formönnum stjórnarflokkanna um að framkvæmd sölunnar hafi ekki staðið undir væntingum stjórnvalda og að ríkisstjórnin hafi ákveðið að leggja til við Alþingi að Bankasýsla ríkisins verði lögð niður. Verði frumvarp þess efnis lagt fram svo fjótt sem auðið er. Þá verði ekki ráðist í frekari sölu að sinni.

Það var ekki ríkisstjórnin sem ákvað þetta enda hafði ekki verið haldinn ríkisstjórnarfundur í tvær vikur. Það er því beinlínis ósatt að ríkisstjórnin hafi ákveðið þetta. Þá er það líka ósatt að tekin hafi verið ákvörðun um að ráðast ekki í frekari sölu að sinni, enda hafði verið gefið út löngu áður að síðasti hluti sölunnar yrði árið 2023. Þá verðum við líka að hafa það á hreinu að armslengdarsjónarmið á milli Bankasýslu ríkisins og ráðherra snýr að daglegum rekstri ríkisbankanna en alls ekki sölu þeirra, enda beinlínis skráð í sérlög um sölu á fjármálafyrirtækjum í eigu ríkisins hver aðkoma fjármálaráðherra er í hverju skrefi sölunnar fyrir sig. Þar er ekki um neina armslengd að ræða og það því einnig ósatt. Í viðtali í Sprengisandi í gær örlaði svo ekki á auðmýkt hjá fjármálaráðherra sem sagði þvert á móti að ríkisstjórnin hefði náð öllum markmiðum sínum með sölunni, sagði hann upplifun almennings vera að gera sér erfitt fyrir og spurði loks hvort pabba sínum hefði verið bannað að kaupa, þegar bent var á að það þætti merki um spillingu.

Forsætisráðherra vill að við vöndum okkur, hlaupum ekki til og drögum ályktanir umfram þau gögn sem við höfum, en gera verður þá kröfu að gaslýsing sé ekki viðhöfð gagnvart þeim sem gagnrýna þessa sölu. Þá hljótum við að gera þá kröfu að forsætisráðherra fari eftir skýru ákvæði 17. gr. stjórnarskrár um að haldinn sé ríkisstjórnarfundur um mikilvæg stjórnarmálefni, en Landsdómur dæmdi þáverandi forsætisráðherra, Geir H. Haarde fyrir brot á einmitt þessu ákvæði í aðdraganda bankahrunsins 2008. Það er ekki hægt að komast undan þessari skyldu með því að segjast hafa haldið fund ef hann var ekki haldinn. Ríkisstjórn er ekki þrír ráðherrar heldur ríkisstjórnin öll. Við hljótum að vera sammála um það.

Æviágrip á vef Alþingis

Smelltu hér til að skoða æviágrip á vef Alþingis
Opna

Fylgstu með

Skráðu þig á póstlistann hjá mér og fylgstu með þeim málefnum sem ég er að vinna að hverju sinni.
Skrá mig
linkedin facebook pinterest youtube rss twitter instagram facebook-blank rss-blank linkedin-blank pinterest youtube twitter instagram