Við göngum til kosninga á morgun og fáum þá tækifæri til að velja þá flokka og það fólk sem við treystum best til að stjórna nærsamfélaginu okkar á komandi kjörtímabili. Grunnþjónustan er undir; leikskólar og skólar, velferðarþjónusta fyrir unga sem aldna, húsnæðismál, umhverfismál og samgöngur. Allt þarf þetta að virka og það í þágu alls almennings en ekki sérhagsmuna.
Við Samfylkingarfólk göngum stolt til kosninga enda sýnir það sig bæði í Reykjavík og í bæjar- og sveitarfélögum um allt land að þar sem við jafnaðarmenn komum að rekstri sveitarfélagsins eru hagsmunir íbúa í forgrunni. Við höfum staðið fyrir fordæmalausri uppbyggingu íbúða og ætlum okkur meira. Þar skiptir máli að hugað sé að blandaðri byggð en ekki bara einblínt á stórar og dýrar fasteignir. Húsnæðisöryggi er lykilmál Samfylkingarinnar og því höfum við verið í fararbroddi í samningum við óhagnaðardrifin fasteignafélög og skipulagt byggingarreiti með það í huga að íbúasamsetning hverfanna verði fjölbreytt og skemmtileg, með blöndu af litlum og stórum eignar- og leiguíbúðum. G óðir leik- og grunnskólar skipta einnig sköpum því menntun er lykillinn að jöfnum tækifærum til framtíðar og þar skiptir fagmennskan máli. Þá skiptir ekki síður máli að kjörnir fulltrúar hugi að því að samfélögin séu lifandi og skemmtileg með menningarstarfi, íþróttum og líflegu félagsstarfi. Við í Samfylkingunni stöndum stolt vaktina með nærandi og skemmtilegu samfélagi um allt land.
Í samgöngumálum höfum við hvort tveggja í sveitastjórnum sem og landsmálum lagt stóraukna áherslu á almenningssamgöngur. Þar verðum við að vera stórhuga og hugsa til framtíðar því einkabíllinn brennir hvort tveggja upp loftslagið okkar sem og tíma vegna umferðartafa. Fjölgun einkabíla á höfuðborgarsvæðinu hefur verið langt umfram íbúafjölgun og þetta bitnar helst á þeim sem þurfa að fara lengri veg til sinna daglegu starfa. Því ætti það að vera sérstakt kappsmál þeirra að efla almenningssamgöngur því þá eykst valið milli ólíkra samgöngumáta. Það er enginn neyddur til að nýta almenningssamgöngur, heldur velja sífellt fleiri að nota aðra fararkosti en einkabílinn daglega og þá verður að hafa val sem virkar. Þess vegna leggjum við áherslu á uppbyggingu nútímalegra almenningssamgöngukosta, bæði Borgarlínu en einnig landlínu. Fyrst aðrar þjóðir geta lært að nýta almenningssamgöngur daglega þá getum við það. Það er framtíðin.
Við kjósum á morgun um framtíðina því það sem gert er í stjórnmálum dagsins í dag varðar framtíðarhagsmuni okkar og barna okkar. Þegar við göngum inn í kjörklefann á morgun skulum við hugsa um þetta og hvernig við viljum jafna tækifæri afkomenda okkar. Þau tækifæri hefur Samfylkingin í huga í öllum sínum störfum.