Að gegna þeirri borgaraþjónustu að vera þingmaður er hvort tveggja ótrúlega lærdómsríkt og gefandi. Þess vegna undrast ég þá spurningu sem ég heyri gjarnan þar sem spurt er hvernig ég nenni þessu því starfið er einmitt svo fjölbreytt og skemmtilegt.
Einn mikilvægasti hluti starfsins er að hitta fólkið í landinu og hlusta á hvað fengist er við frá degi til dags. Þetta gerum við á ýmsum vettvangi. Í fyrsta lagi hittum við fjöldan allan af fólki í þeim fastanefndum Alþingis sem við sitjum í, en þar er fundað tvisvar sinnum í viku hverri. Þangað kemur fjölbreyttur hópur fólks, sérfræðingar, áhugafólk og fólk sem hefur sent okkur erindi um allt það sem á því brennur. Fastanefndirnar eru átta og sinnir hver nefnd sínum málefnasviðum. Allir þingmenn eiga sæti í fastanefndum, þeir einbeita sér þannig að þeim málefnasviðum sem þeim eru falin og gæta þess svo að fræða aðra í þingflokknum um þau mál sem þar eru unnin.
Í öðru lagi hittum við fjöldan allan af fólki í hverri viku sem ýmist heimsækir okkur í þingið eða á skrifstofur okkar eða við heimsækjum, utan þing- og nefndarfunda. Þannig fræðumst við um starfsemi félaga, fyrirtækja og stofnana.
Loks eru það lengri ferðir þingflokka, sem teknar eru í kjördæmavikum tvisvar á ári en einnig utan þeirra vikna, þegar hlé er gert á þingfundum. Þá gefst þingmönnum og starfsfólki þingflokka kærkomið tækifæri til að ferðast saman, heyra hvað brennur á landsmönnum og þann fróðleik tökum við svo með okkur inn í þingstörfin, hvort sem er til umræðu í þingsal, til umræðu í fastanefndum eða þá að ákveðið er að gert verði þingmál til að koma einhverjum breytingum í gegn.
Sá hluti starfsins að kafa ofan í einstaka mál, hitta fólk sem lifir og starfar við ýmis störf við ólíkar aðstæður um allt land leyfi ég mér að segja að sé jafn lærdómsríkt og að stunda langt nám. Hver þingmaður fær þannig tækifæri til að kynna sér starfsemi sem er honum mögulega mjög framandi, fær tækifæri til að spyrja um allt það sem betur má fara í öllum mögulegum aðstæðum sem upp koma, heyrum af því sem gengur vel og hvernig við, fulltrúar þjóðarinnar á Alþingi getum orðið að gagni við lagfæringar á öðru.
Í næstu viku mun þingflokkur Samfylkingarinnar leggja upp í eina ferðina til, en það höfum við gert nokkrum sinnum á ári undanfarin ár. Þessar ferðir hafa alltaf skilað sér í betri vinnu okkar í þinginu, því með þessu vitum við betur hvar við þurfum að beita okkur og hvað við þurfum að laga. Það er kærkominn hluti af starfi okkar að fara út og heimsækja byggðir landsins og ég hlakka ævinlega til þessa hluta starfsins. Ég vil þakka fyrir höfðinglegar móttökur í komandi viku og þakka sömuleiðis fyrir gestrisni í þeim ferðum sem við höfum áður farið.