Ráðherraábyrgð

Það skiptir miklu máli að við sem kjörin erum á Alþingi Íslendinga virðum skýrar reglur um lagalega ábyrgð ráðherra, en ráðherraábyrgð inniber persónulega refsi- og skaðabótaábyrgð þess sem gegnir ráðherraembætti.

Lagt var til í nýju stjórnarskránni að ákæruvald vegna brota ráðherra yrði tekið af Alþingi og Landsdómur felldur niður en hún hefur ekki enn verið lögfest. Ráðamenn hafa hins vegar í seinni tíð ítrekað talað niður þá lagalegu og pólitísku ábyrgð sem ráðherrar bera ótvírætt samkvæmt gildandi stjórnarskrá sem við tókum upp við lýðveldistökuna og lögum um ráðherraábyrgð. Það er hins vegar enginn vafi á því að lög um ráðherraábyrgð og stjórnarskráin eru í fullu gildi. Það er heldur enginn vafi á því að Alþingi fer með ákæruvald og Landsdómur hefur dómsvaldið. Sé vilji til að breyta því þarf að breyta stjórnarskrá sem og lögum um ráðherraábyrgð en þangað til höfum við ekki val um hvort ráðherrar þurfi að fara að lögum.

Björg Thorarensen, einn okkar fremsti lögspekingur og nú dómari við Hæstarétt, hefur fjallað ítarlega um reglur um ráðherraábyrgð. Fyrirkomulag ráðherraábyrgðar er sambærilegt við það sem gildir á Norðurlöndum, enda fylgja reglur okkar varðandi stjórnskipan og réttarfar hinum norrænu reglum á margvíslegan hátt. Markmið reglnanna er að hægt sé að refsa fyrir þau brot sem sérstaklega má óttast að ráðherra fremji og almenn refsiákvæði samkvæmt hegningarlögum ná ekki til. Í lögunum eru brotin svo skilgreind og varða eingöngu þau brot sem ráðherra fremur í embætti sínu, þ.e. brot gegn stjórnarskrá, brot gegn landslögum eða brot gegn góðri ráðsmennsku og á þar við þegar ráðherra misbeitir stórlega valdi sínu eða framkvæmir eða lætur fyrir að framkvæma eitthvað, sem stofnar heill ríkis í fyrirsjáanlega hættu. Saknæmisskilyrðin eru svo ásetningur eða stórkostlegt hirðuleysi, athafna- eða athafnaleysi.

Skemmst er að minnast tveggja fyrrverandi dómsmálaráðherra Sjálfstæðisflokks sem þurftu að segja af sér embætti, sem ítrekað sögðu að þær bæru sína pólitísku ábyrgð í kosningum á fjögurra ára fresti. Svo er auðvitað ekki í raun því landsmenn fá því miður ekki að stunda persónukjör heldur listakjör og hafa sáralítið um það að segja hvaða fólk raðast á lista kjósi það að vera óflokksbundið. Hin pólitíska ábyrgð gagnvart þinginu birtist hins vegar í því að ráðherrar sitja í krafti meirihluta þingmanna hverju sinni og þannig má segja að hin pólitíska ábyrgð ráðherra smitist yfir á aðra þingmenn, þó óbeint sé. Þingræðisregla stjórnarskrárinnar er skýr með þetta, á meðan meirihluti þings ver sinn ráðherra þá ber allur meirihlutinn ábyrgð á honum, ekki bara flokkssystkin ráðherrans.

Æviágrip á vef Alþingis

Smelltu hér til að skoða æviágrip á vef Alþingis
Opna

Fylgstu með

Skráðu þig á póstlistann hjá mér og fylgstu með þeim málefnum sem ég er að vinna að hverju sinni.
Skrá mig
linkedin facebook pinterest youtube rss twitter instagram facebook-blank rss-blank linkedin-blank pinterest youtube twitter instagram