Skiptar skoðanir eru um málefni sem teljast mikilvægust í nútímanum. Grundvallarþættir í samfélögum þurfa að vera til staðar en skiptar skoðanir virðast vera um forgangsröðun.
Ein frumþarfanna er að hafa húsaskjól og að því verða stjórnvöld að huga öllum stundum. Þau eiga að tryggja framboð og að kostnaður við húsnæði sé í samræmi við sjálfsaflarfé almennings. Á tímum síðustu ríkisstjórna hefur staðan á húsnæðismarkaði versnað verulega. Byggingamarkaðurinn fraus í kringum hrun en sú staðreynd blasir við að þær ríkisstjórnir sem síðar komu hafa ekki náð að tryggja nægt framboð. Villta-vesturs ástand ríkir bæði á eigna- og leigumarkaði og regluverk skortir til að tryggja að það húsnæði sem þó er byggt fari strax í notkun. Það verður að tryggja að byggingaraðilar sitji ekki á fullbúnum íbúðum til að hækka verð. Þá þarf að koma böndum á síhækkandi leiguverð og það má gera með leigubremsu eins og við í Samfylkingunni höfum ítrekað lagt til og þekkist víða.
Á tímum mikillar verðbólgu og sífellt hærri stýrivaxta verður öll almenn framfærsla, þjónusta og nauðsynjavörur, dýrari. Ráðaleysi stjórnvalda bitnar þannig harkalega á almenningi sem finnur verulega fyrir aðgerðarleysinu.
Tryggja þarf aðgang að heilbrigðis- og velferðarþjónustu en einnig þar hafa síðustu ríkisstjórnir brugðist. Ný könnun Félagsvísindastofnunar sýnir að tæplega 50% öryrkja hafa þurft að fresta læknisþjónustu og rúm 20% þeirra sem ekki eru á örorku. Þau frestuðu einnig úttekt nauðsynlegra lyfja. Er þetta veruleg aukning frá könnun frá 2015.
Innviðaskuld stjórnvalda í íslensku samfélagi er þannig orðin veruleg og þarf átak til að snúa þeirri þróun við.
En ráðamenn og aðrir kjörnir fulltrúar þurfa að huga að fleiru. Það þarf að vernda rétt einstaklinga og kynslóða. Tryggja grundvallarrétt eins og frelsi og jöfnuð, friðhelgi og jafnrétti. Slík mannréttindi mega aldrei mæta blindu auga stjórnmálafólks því stöndugir innviðir skipta litlu ef grundvallarmannréttindi eru látin sitja á hakanum. Kjörnir fulltrúar mega ekki láta eins og þau atriði séu minna virði. Réttindi milli kynslóða felast svo í að ganga ekki þannig á lífríki jarðar að við skiljum hana eftir í verra ástandi eftir okkar dag. Það er gríðarlega mikilvægt og líklega það mikilvægasta til lengri tíma litið.
Við höfum séð sívaxandi skautun gagnvart einstaka minnihlutahópum en einnig stefnum til verndar jörðinni sem þau sem hafa kröftuga rödd í samfélaginu verða að gefa gaum. Með því að velja að sitja hjá og standa ekki vörð um grundvallarmannréttindi fólks og kynslóða er ofstækið fóðrað og gert að eðlilegum hlut. Það má ekki verða.
Jöfnuður eykur hagsæld til framtíðar. Fordæmin sýna að hann þarf að verja og það gerum við saman.