Að kaupa sér velvild

Fjölmiðlar eru hluti valdsins vegna þess að þeirra hlutverk er að veita ríkjandi valdhöfum aðhald. Mikilvægi frjálsra og óháðra fjölmiðla er þannig umtalsvert í lýðræðisríki því stjórnvöld eiga ekki að geta hlutast til um hvernig um þau er fjallað. Við sjáum dæmi um hið gagnstæða í ráðstjórnarríkjum þegar stjórnvöld banna umfjöllun sem þeim er ekki þóknanleg. Fjölmiðlar eru ekki hafnir yfir gagnrýni en gæta verður þess hvernig hún er fram borin. Þegar valdhafi, sem hlutast getur um fjárframlög eða starfsheimildir til fjölmiðils, ber upp harða gagnrýni við umfjöllun fjölmiðils getur slíkt verið merki um að verið sé að senda ákveðið viðvörunarmerki til fjölmiðilsins um að haga umfjöllun sinni með ákveðnum hætti. Það er skaðlegt í lýðræðisríki þar sem almenningur verður að geta gengið að því vísu að fréttaflutningur sé hlutlægur og byggður á staðreyndum þannig að allir sem fjallað er um séu meðhöndlaðir með jöfnum hætti óháð tengslum.

Að sama skapi getur sérstakt fjárframlag stjórnvalda til fjölmiðils, sem ekki er úthlutað eftir hlutlægum og gagnsæjum leiðum, verið merki um að valdhafinn sé með því að „kaupa sér“ sérstaka velvild. Það er jafn skaðlegt lýðræðinu og það sem áður var nefnt. Þannig mun almenningur ekki geta treyst því að fréttaflutningur viðkomandi fjölmiðils byggist á bestu vitund og staðreyndum heldur því gagnstæða, sérstakri velvild til þeirra sem tryggðu starfsgrundvöllinn.

Þess vegna vakti það sérstaka athygli þegar í ljós kom að 100 milljón króna viðbótarframlag til frjálsra fjölmiðla við 2. umræðu fjárlaga væri ekki almenn hækkun sem kæmi til úthlutunar samkvæmt því fyrirkomulagi sem ríkir heldur eyrnamerkt einum tilteknum fjölmiðli að því er virðist, sem sent hafði erindi til fjárlaganefndar.

Alþingi breytti fjölmiðlalögum árið 2021 til að færa fjölmiðlaumhverfið í átt að því sem þekkist í nágrannaríkjunum. Viðurkennd var þörf á frjálsri fjölmiðlun og nauðsyn þess að fréttamiðlum yrði veittur fjárhagsstuðningur enda hefur fjölmiðlaumhverfið breyst mikið undanfarinn áratug. Samkvæmt lögunum skal sérstök úthlutunarnefnd, sem skipuð er þar til bærum aðilum annast afgreiðslu umsókna fjölmiðla um styrk, eftir vel skilgreindum skilyrðum í lögunum. Þannig er ætlunin að tryggja armslengd valdhafa við styrkveitinguna. Þetta er mikilvægt eins og áður sagði, vegna upplýsingaöryggis og í þágu lýðræðis.

Þeim mun alvarlegra er það þess vegna að stjórnarliðar í fjárlaganefnd hafi tekið ákvörðun um það, framhjá því kerfi sem skrifað er í fjölmiðlalög, að veita einum fjölmiðli styrk sem nemur tæpum þriðjungi  heildarstyrks  sem veittur er samanlagt til allra frjálsra fjölmiðla landsins á næsta ári án þess að nokkurt faglegt mat færi fram.

Æviágrip á vef Alþingis

Smelltu hér til að skoða æviágrip á vef Alþingis
Opna

Fylgstu með

Skráðu þig á póstlistann hjá mér og fylgstu með þeim málefnum sem ég er að vinna að hverju sinni.
Skrá mig
linkedin facebook pinterest youtube rss twitter instagram facebook-blank rss-blank linkedin-blank pinterest youtube twitter instagram