Ég sat með góðum vinum um helgina þar sem rædd var staða fólks á flótta. Fólk vill fá réttar upplýsingar, en því miður hafa sumir valdhafar leitt umræðuna í villu og þess vegna vil ég í þessum mola gera mitt til að lýsa upp þokuna sem einkennir umræðuna. Rangar upplýsingar skapa nefnilega fordóma.
Rúmlega 100 milljón manns eru á flótta í heiminum. Það er fordæmalaus fjöldi sem einkennist ekki síst af þeim fjölda sem flúið hefur Úkraínu frá því að Rússar réðust þangað inn í febrúar 2022. Sjö milljónir hafa flúið Úkraínu sem er sambærilegur fjöldi og flúið hefur Sýrland frá upphafi átaka þar árið 2011. Frá Venesúela hafa tæplega sjö milljónir flúið frá árinu 2015. Sá fólksflótti sem brast á með hryllilegu innrásarstríði Rússa í Úkraínu er því fordæmalaus. Langflest leita skjóls í nágrannaríkjum, svo sem Kólumbíu, Tyrklandi og Póllandi. Sárafáir ná til Íslands.
Íslensk stjórnvöld ákváðu að veita úkraínsku flóttafólki vernd og hafa þaðan komið tvö þúsund manns. Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna skoraði á ríki að veita þeim vernd og það sama gerði stofnunin varðandi flóttafólk frá Venesúela enda ríkir þar vargöld sem óvíst er hvenær taki enda. Þar stendur réttarríkið veikt, einnig lýðræðið og grunnstoðir landsins eru að hruni komnar. Kærunefnd útlendingamála staðfesti neyðina og eiga þessi tvö þjóðerni rúm 80% allra umsókna um vernd hér á landi. Umsóknir frá öðrum þjóðernum hefur ekkert fjölgað.
Í umræðu um endursendingar til Grikklands í síðustu viku hefur borið á misskilningi og sökinni skellt á Dublin reglugerðina en hún hefur veitt stjórnvöldum skjól gegn umsóknum þeirra sem þegar hafa fundist í öðrum ríkjum dyflinnarsamstarfsins. Sá hópur sem sendur var á götuna í Grikklandi í liðinni viku heyrir ekki undir þá reglugerð heldur hefur sá hópur þegar fengið viðurkennda stöðu flóttafólks, en ekki fengið vernd gegn ómannúðlegum og hættulegum aðstæðum á götum Grikklands. Þau dvelja ekki í flóttamannabúðum í Grikklandi sem eru eingöngu fyrir þá sem enn bíða niðurstöðu umsókna sinna. Gatan er því þeirra heimili og fæði úr ruslatunnum þeirra næring.
Samtala endursendinga allra Evrópuríkja til Grikklands á fyrri helmingi ársins nær ekki 100. Hafa hjálparsamtök gagnrýnt framkvæmdina vegna þeirrar hættu sem ríkin setja fólk í og stöðvuðu bæði Þýskaland og Holland endursendingar til Grikklands. Með ákvörðun sinni um að senda fólk á götuna í Grikklandi, þar á meðal fatlaðan einstakling, má velta fyrir sér hvort íslensk stjórnvöld séu að virða þá grundvallarreglu sem bannar endursendingu ef fólk er í hættu á ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð. Telja sumir amk að gisting á götu og fæða úr ruslatunnum sé hvort tveggja ómannúðleg og vanvirðandi.