Ætlar að fara í frelsið

Helga Vala Helga­dótt­ir tal­ar ekki í kring­um hlut­ina frek­ar en vana­lega þegar hún er spurð út í bæj­ar­róm­inn: „Já, ég er að hætta á þingi og ætla að helga mig lög­manns­störf­um.“

Það er þó ekki svo að hún hafi misst áhuga á stjórn­mál­um, það kem­ur skýrt og skor­in­ort fram hjá henni, en lög og rétt­ur toga í hana og nú þykir henni rétti tím­inn til þess að sinna þeirri köll­un.

„Ég fór mjög óvænt inn á þing 2017, þegar ég var lögmaður í blúss­andi rekstri sem gekk mjög vel. Þetta hef­ur verið æv­in­týra­legt ferðalag og ákaf­lega skemmti­legt. En svo fer það að áger­ast und­an­farið ár – líkt og ger­ist oft með lög­menn en líka lækna – að fólk héðan og þaðan er að leita ráða hjá mér, biðja mig um ráðlegg­ingu varðandi eitt og annað. Ég hef meira að segja fengið sím­tal úr héraðsdómi um hvort ég gæti tekið að mér lög­manns­störf, þrátt fyr­ir að vera ekki með virk lög­manns­rétt­indi.

En ég fékk smá fiðring við þetta. Mér finnst lög­fræðin ofsa­lega skemmti­leg og lög­mennsk­an sömu­leiðis heill­andi. Mér finnst gam­an að vera svona ná­lægt lausn­un­um, vera að hjálpa fólki eins mikið og ég get. Svo það hef­ur ágerst á und­an­förnu ári og haft sín áhrif.“

En þú hef­ur alltaf verið með sterka póli­tíska taug, löngu áður en þú slysaðist á þing?

„Já, mér finnst póli­tík­in skemmti­leg, finnst hinn póli­tíski leik­ur skemmti­leg­ur. Þetta argaþras, og að leita lausna, ég held það sjái það all­ir.“

Þú ert nátt­úr­lega lærður leik­ari …

„Já, þetta er leik­hús, svona það sem snýr að al­menn­ingi. Ég held að mennt­un mín hafi nýst vel þarna, bæði lög­fræðin og leik­list­in. Að kunna að beita rödd­inni, þekkja töfra þagn­ar­inn­ar, hafa pre­sens og ná valdi á saln­um. Sem raun­ar á líka við í dómsal.“

Er ekki að fara úr Sam­fylk­ing­unni

En af hverju að hætta núna þegar Sam­fylk­ing­in fer með him­inskaut­um í skoðana­könn­un­um?

„Ég held að það sé miklu verra að stökkva frá borði þegar illa geng­ur og mest reyn­ir á. Ég myndi ekki vilja fara frá hópn­um mín­um þegar þannig stend­ur á, ég er mik­il svona … liðskerl­ing.

Og svo það sé nú al­veg á hreinu, þá er ég ekki að fara úr Sam­fylk­ing­unni. Ef það væri málið, þá væri ég far­in í ein­hvern af þeim flokk­um sem hafa boðið mér að koma þangað.“

Hverj­ir voru að bjóða þér það?

„Það gerðist þarna síðasta haust þegar mér var skipt út sem þing­flokks­for­manni, þá héldu sum­ir að ég væri kom­in í svo mikla fýlu að ég væri á leið úr flokkn­um. En ég er ekki þar. Ég er ekki í póli­tík fyr­ir mig og mína hatta.“

Í al­vöru?

„Ég veit að það trú­ir því eng­inn, af því að þannig birt­ist póli­tík­in, en það er samt þannig.“

Nú hef­ur þú þótt frek­ar til vinstri á mæli­kv­arða Sam­fylk­ing­ar­inn­ar en nýi formaður­inn, Kristrún Frosta­dótt­ir, síður; það voru alls kyns sög­ur um að þú og hún ættuð ekki skap sam­an, að það gneistaði milli ykk­ar bæði per­sónu­lega og póli­tískt. Gátuð þið ekki unnið sam­an?

„Ég er búin að heyra þetta allt. Fyrst átti þetta að vera milli henn­ar og Odd­nýj­ar [G. Harðardótt­ur], en svo heyrði ég ein­hvern tala um að vinnustaðasál­fræðing­ur hefði komið til aðstoðar vegna þess að mér og Kristrúnu kæmi ekki sam­an. Mér var a.m.k. ekki boðið í það partí og það hef­ur eng­um dottið í hug að spyrja mig hvort það væri fót­ur fyr­ir þess­ari sögu.“

Svo er ekki?

„Að minnsta kosti var mér ekki boðið. En sag­an er líf­seig og póli­tísk­ir and­stæðing­ar hafa gam­an af að rifja hana upp á tylli­dög­um.“

Það breyt­ir ekki því að þið Kristrún eruð ekki sam­mála um allt.

„Nei, nei. Það er ekk­ert leynd­ar­mál að ég er mik­ill Evr­óp­us­inni og lít­ill stóriðjukrati. Og mitt er­indi í póli­tík er mann­rétt­indi, rétt­indi fólks, jöfnuður. Þau mann­rétt­indi geta verið efna­hags­leg, náð til kynja, kynþátta, kyn­slóða … þess vegna steig ég inn.“

Á það ekki líka við um for­mann­inn þinn, þótt nálg­un­in geti verið ólík?

„Jú ef­laust, en mín út­ganga snýst bara ekk­ert um Kristrúnu. Og þótt það sé vin­sælt að teikna upp þá mynd að tvær kon­ur geti ekki verið sam­an í her­bergi, þá er það bara ekki rétt og brott­för mín hef­ur ekk­ert með hana að gera.“

Hjartað ræður för

Held­ur hver?

„Það er hjartað sem ræður og al­menn gleði. Mig lang­ar meira í lög­mennsku núna.

Ég lít svo á að þing­mennsk­an sé borg­araþjón­usta. Þetta er ekki þægi­leg inn­vinna, langt í frá, og á ekki að vera. Ef mér finnst að hjarta mitt sé farið eitt­hvað annað, þá finnst mér að kjós­end­ur eigi rétt á því að ég sé ekki að hanga í ein­hverj­um stól.“

Mörg­um finnst þeir nú þægi­leg­ir.

„Með fullri virðingu, þá sýn­ir sag­an okk­ur að fólk hang­ir frek­ar of lengi á þess­um stól­um en hitt.

Núna geng­ur mjög vel, ég er ekki að svíkja neina og óska fé­lög­un­um góðs geng­is. Ég er bara að segja takk fyr­ir mig.

Þetta er búið að vera æðis­lega skemmti­legt, ég er búin að læra mjög mikið, og nú ætla ég að fara í frelsið.“

Þér finnst það frelsi miðað við þing­störf­in?

„Já, en ég á líka við það að vera eig­in herra, ég hef á vís­an stað að fara og und­ir mér komið hvað úr verður. Það á ekki við um alla þing­menn. Þeir eiga marg­ir – sér­stak­lega kon­ur – erfitt með að fá vinnu eft­ir að hafa verið hér á þingi um lengri eða skemmri tíma.“

Þú hef­ur ekki áhyggj­ur af því að starfs­manna­velt­an í þing­inu sé of mik­il, að stofn­anam­innið daprist of hratt?

„Jú, vissu­lega. Ég get verið sam­mála því að ein­hverju leyti. Ég get líka verið sam­mála því að stund­um skorti fag­mennsku í þingið. Það er stund­um sagt að það séu of marg­ir lög­fræðing­ar á þingi, en það get ég ekki tekið und­ir. Við erum lög­gjaf­inn.

Reynsla mín af því að vera formaður vel­ferðar­nefnd­ar á ög­ur­tím­um heims­far­ald­urs, þar sem við ásamt fjár­laga­nefnd og efna­hags- og viðskipta­nefnd vor­um starf­söm­ustu nefnd­irn­ar, var nú sú að það hefði ekki veitt af fleiri lög­fræðing­um.“

Lausa­tök í heims­far­aldri

Þá hefðu kannski dóm­arn­ir orðið færri?

„Já, dóm­ar yfir ráðherr­um og rík­is­valdi hefðu sjálfsagt orðið færri.

Nú erum við Sig­ríður Á. And­er­sen ekki skoðana­syst­ur í stjórn­mál­um, en það var ákveðin líkn, þegar hún kom og leysti af í vel­ferðar­nefnd á þess­um tím­um. Ég fann að þar var kom­in mann­eskja sem skildi mik­il­vægi þess að við sett­um í lög þær þving­un­ar­ráðstaf­an­ir sem lagðar voru á borg­ar­ana. Því það þurfa að vera ákveðin lög og regl­ur, sem við verðum að fara eft­ir, og við þurf­um að gæta að standi í lög­um ef rík­is­valdið ætl­ar í slíkt. Mér fannst á þeim erfiðu krísu­tím­um of lít­ill skiln­ing­ur á þessu öllu í þing­hópn­um.“

Átti það ekki við í öll­um flokk­um?

„Jú, ég er að tala um þingið í heild sinni.

Og ekki bara þar. Ég þurfti nú að skrifa opið bréf til Kára Stef­áns­son­ar um þetta. Að hann væri auðvitað frá­bær lækn­ir en hann væri ekki lög­fræðing­ur. Við erum hér bara að tala um lög­fræði. Ég ber djúpa virðingu fyr­ir Kára, en hann er ekki auðveld­ur maður. En það er oft gam­an að fólki sem er ekki mjög auðvelt.“

Var lög­gjaf­inn ekki að valda verk­efn­inu?

„Það er nú oft­ar sem ég hef orðið bál­reið yfir ein­hverju svona fúski í þing­inu. Eins og við erum nú að horfa upp á í þessu bixi með út­lend­inga­mál­in, þegar ráðherr­ar túlka ný­samþykkt lög með ger­ólík­um hætti. Svo er því vísað til Laga­stofn­un­ar, sem svar­ar að það hafi aðeins verið spurt um eitt en ekki hitt sem máli skipti. Það er ástæða fyr­ir því að stjórn­völd spyrja ákveðinna spurn­inga en ekki allra hinna, af því að þau vilja ákveðin svör til að geta byggt á þeim í umræðunni.

En ég skal líka játa að mér finnst þetta bæði skemmti­leg­asti hlut­inn af þing­starf­inu, það er að geta bent á þessa lög­fræðilegu þætti, en líka það sem veld­ur manni mestri gremju þegar mik­il­væg lög­fræðileg sjón­ar­mið kom­ast ekki að. Þegar maður biður koll­eg­ana að gleyma því eitt augna­blik að maður sé stjórn­ar­and­stöðuþingmaður og hlusta aðeins, að ég sé ekki að reyna að klekkja á þeim held­ur aðeins að benda á að ef eitt­hvað sé orðað svona þá leiði það til ein­hvers sem ekki var ætl­un meiri­hlut­ans.

En af því að maður er í stjórn­ar­and­stöðu, þá finnst mörg­um maður bara vera með stæla.“

Þrasið á ekki að vera per­sónu­legt

Á það við um alla þína júrísku bræður og syst­ur á þingi?

„Nei, þess vegna var svo gott að fá Siggu þarna inn, af því að hún skildi hvað ég var að fara. Um það vor­um við al­veg sam­mála, þótt okk­ur greindi á um nán­ast allt annað.“

Þið Brynj­ar Ní­els­son, sem líka er lög­fræðing­ur, urðuð landsþekkt fyr­ir að ríf­ast viku­lega í Bít­inu á Bylgj­unni, átti þetta líka við um ykk­ur?

„Ja, það er nú bara þannig með póli­tík­ina, fólk er oft að velta fyr­ir sér hvernig maður geti verið að standa í þessu argaþrasi ei­líf­lega og ein­mitt ekki síst út af þess­um reglu­legu rimm­um okk­ar Binna. Ég tek svona póli­tískt þras bara eng­an veg­inn per­sónu­lega. Þess vegna var líka þægi­legt að hafa hann á móti sér, því að hann var al­veg eins stemmd­ur með það.“

En það eru ekki all­ir þannig.

„Nei, það eru ekki all­ir þannig.“

Hef­ur þú tekið það nærri þér?

„Nei, ég hef þykk­an skráp. En ég á erfitt með óheiðarleika og und­ir­ferli, þegar verið er að reyna að koma fólki illa per­sónu­lega og í einka­lífi þess út frá póli­tík. En það er auðvitað bara ákveðin teg­und af mann­fólki og finnst víðar en á þingi. Og svo er nú hitt að þótt maður sé með skráp, þá á það ekki endi­lega við um þá sem næst manni standa, þau verða stund­um viðkvæm­ari fyr­ir skít­kast­inu til mín.“

Meiri harka, meiri skaut­un

Mér finnst þessi harka hafa ágerst eft­ir hrun, get­ur það verið rétt?

„Jú, ég held að það sé orðið al­geng­ara. Sum­um virðist ekki nægja að eiga and­stæðinga, þeir hafa þá að óvin­um. Við svo bæt­ist að það sem á sér stað inn­an flokk­anna er miklu flókn­ara og til­finn­inga­rík­ara en það sem á sér stað milli flokka.

En það er þessi skarpa skaut­un sem er orðin í öllu, ég hef áhyggj­ur af henni. Eig­in­lega bara mjög mikl­ar.“

Líða þing­störf­in fyr­ir það?

„Já, en ég er meira að tala um skaut­un í sam­fé­lög­um, því þessi þróun hef­ur verið víða um heim. Og það eru ákveðnir kjörn­ir full­trú­ar, bæði á Íslandi og ann­ars staðar, sem ætla sér að ná hylli með því að auka skaut­un­ina. Það held ég að muni ekki leiða til neins góðs.“

En hafa slík­ir stjórn­mála­menn nokkuð upp­skorið hér? Þeir hafa ekki náð miklu ef nokkru fram og ekki hald­ist vel á at­kvæðum.

„Kannski ekki, en áður var þetta bara einn og einn maður, mér finnst fleiri tala á sama veg nú.“

En berið þið ekki líka ábyrgð á skaut­un­inni? Í margrædd­um út­lend­inga­mál­um eru ýms­ar rétt­mæt­ar áhyggj­ur, sem samt fást ekki rædd­ar, og þeim sem færa þær í tal born­ar á brýn ann­ar­leg­ar kennd­ir og for­dóm­ar.

„Jújú og manni finnst t.d. eins og Sjálf­stæðis­flokk­ur­inn viti ekk­ert hvernig hann eigi að höndla þenn­an mála­flokk. Og ekki voru þau skýr­ari skila­boðin frá þess­um tveim­ur flokks­ráðsfund­um, sem við feng­um um síðustu helgi. Al­mátt­ug­ur!

Ástlaus­ara hjóna­band hef­ur maður nú varla orðið vitni að. Því það sem maður fann upp­haf­lega var að það voru ein­hverj­ir straum­ar þarna und­ir niðri, en nú er þetta bara mála­mynda­hjóna­band.“

Ætlar ekki í hæl­is­leit­enda­mál­in

Við nefnd­um út­lend­inga­mál­in, sem þú hef­ur helgað þig tölu­vert, bæði í lög­manns­störf­um áður og síðar í þing­inu, en nú ertu að fara aft­ur að praktísera. Ætlarðu sinna þeim mikla mála­flokki aft­ur?

„Nei.“

Nei?

„Nei. Þegar maður er að fara aft­ur af stað í lög­mennsku þarf maður að gæta þess að maður geti rekið sig og þessi mál eru ekki vel til þess fall­in. Lög­menn í þeim mála­flokki þurfa að gefa mikið af sín­um tíma og það er ekki hægt að end­ur­ræsa lög­manns­stofu á þeim grunni.“

Hvaða sviðum lög­fræðinn­ar ætl­arðu helst að sinna?

„Ég mun taka upp þráðinn í saka­mál­um, mér finn­ast þau spenn­andi og skemmti­leg. Eins hvers kyns per­sónu­rétt­ur, fjöl­skyldu­rétt­ur, mann­rétt­indi og fleira. Síðan vil ég fara meira í stjórn­sýsl­una, aðstoða sveit­ar­fé­lög og fyr­ir­tæki í sam­skipt­um við rík­is­valdið. Þar hef ég öðlast mikla reynslu á síðustu árum.“

Held­urðu að ein­hver fetti fing­ur út í að þú sért allt of vel tengd eft­ir þing­set­una?

„Þetta er lítið land og ég hafði verið í sam­skipt­um við fólk út um allt sam­fé­lag áður en ég sett­ist á þing. Þetta er því ei­líf vanga­velta um hver var í bekk með syst­ur hvers eða kyssti bróður hins. Það eru ís­lensk­ar teng­ing­ar og þess vegna minni ástæða til að hafa áhyggj­ur af tengsl­um við er­lenda borg­ara með lít­il sem eng­in tengsl. Við ætt­um kannski að hafa meiri áhyggj­ur af tengsl­um þing­manna við samlanda sína.“

Gæta menn sín ekki?

„Við sjá­um bara fólk setja digr­ar summ­ur inn á kosn­inga­sjóði þing­manna og þá skil­ur maður ákveðna af­stöðu í hápóli­tísk­um mál­um. Þú ert bein­lín­is að fást við þing­mál, sem hafa bein áhrif á fyr­ir­tæki í þinni eigu eða fjöl­skyld­unn­ar. Og það er bara látið eins og það sé allt í lagi á meðan þetta eru Íslend­ing­ar.

Á hverj­um degi les ég í komm­enta­kerf­um að ég sé van­hæf til að fjalla um mál­efni flótta­fólks af því ég græði svo mikið á þess­um mál­um. Sem er bara lygi og ég hef bent á það í mörg ár. Svo koma jafn­vel þing­menn í þingsal og lepja þetta upp.

Arn­ar Þór Jóns­son spurði mig þó að þessu beint og ég þakkaði hon­um nú bara fyr­ir að gefa mér tæki­færi til þess að út­skýra það að ég hefði látið af lög­mennsku þegar ég sett­ist á þing 2017, en þessi mál voru þess utan tek­in af lög­mönn­um og sett inn í Rauða kross þrem­ur árum fyrr.“

Vill meiri mennsku í saka­mál­in

Saka­mál­in, hef­urðu eng­ar áhyggj­ur af að þú sért að koma inn í tals­vert harðari glæpa­heim en þú kvadd­ir 2017?

„Það sem ég vil setja meira inn í saka­mál­in er ákveðin mennska.

Ég held að við þurf­um oft­ar að spyrja sak­born­ing­inn: „Hvað kom fyr­ir þig? Hver var vond­ur við þig?“ Ég held að við þurf­um að vinna með þess­ar spurn­ing­ar miklu oft­ar. Og ég held að við þurf­um líka að gera það varðandi hatrið, sem nú fær­ist í vöxt eins og við sáum í skemmd­ar­verk­inu á Skóla­vörðustíg um síðustu helgi. Hvað veld­ur þessu hatri og heift?

Þetta sprett­ur ekki úr engu. Það er eitt­hvað sem hef­ur gerst hérna. Það eru ekki bara er­lend glæpa­gengi sem hafa búið þetta til. Það er eitt­hvert rof.“

En þetta eru ekki svör­in sem fjöl­skyld­ur fórn­ar­lamba vant­ar, ekki rétt­lætið sem þær leita.

„Nei. En ef við ætl­um að reyna að fækka glæp­um, þá lög­um við ekki það sem gerst hef­ur, en við get­um reynt að koma í veg fyr­ir að ein­stak­ling­ur sem frem­ur hræðileg­an glæp haldi áfram á þeirri braut. Við kom­um ekki í veg fyr­ir glæpi með því að út­skúfa viðkom­andi úr ís­lensku sam­fé­lagi. Það verður eng­inn að betri manni við það.“

Finnst þér refs­i­stefn­an hér ströng?

„Nei, hún er ekki mjög ströng en okk­ur vant­ar betr­un. Við erum ekk­ert rosa­lega góð í því þessa dag­ana að gefa fólki annað tæki­færi eft­ir að það kem­ur úr fang­elsi. Auðvitað eru ákveðin brot flókn­ari eins og kyn­ferðis­brot, og það er eng­inn að ætl­ast til þess að brotaþolar fyr­ir­gefi of­beld­is­manni eft­ir afplán­un. En mann­eskj­an verður ekki betri af var­an­legri út­skúf­un, líkt og get­ur orðið hjá ung­um strák­um, sem hafa leiðst út á braut af­brota. Sú út­skúf­un er helst til þess fall­in að gera þá and­fé­lags­lega.

Á því þarf sam­fé­lagið að taka, því það er dýrt í öll­um skiln­ingi að gera ekk­ert í því eða gera það illa. Það er sam­fé­lag­inu dýrt að láta ein­stak­ling, sem er sakaður um brot, ganga í fjög­ur ár frá kæru þar til dóm­ur er kveðinn upp í Lands­rétti. Það er lang­ur tími fyr­ir 18 ára mann sem þarf að dúsa svo lengi á saka­manna­bekk áður en dóm­ur fell­ur. Jafn­vel í játn­ing­ar­mál­um.“

Og svo er dóm­ur­inn.

„Já, svo er dóm­ur­inn. Þar finnst mér rétt að spyrja af hverju dóm­ar­ar megi ekki dæma fólk til sam­fé­lagsþjón­ustu, af hverju það verði að vera fang­els­is­dóm­ur. Af hverju má ekki gefa ung­um strák­um annað tæki­færi und­ir ákveðnum kring­um­stæðum frek­ar en að senda þá inn á Hraun til gömlu neyslu­fé­lag­anna, sem þeir hafa kannski „skvílað“ um?

En óháð þeim dómi er svo er líka dóm­stóll göt­unn­ar, sem held­ur áfram með sum mál eft­ir að þeim er lokið i rétt­ar­kerf­inu, einkum kyn­ferðis­brot. Það verður ein­hvers staðar að vera hægt að kom­ast aft­ur inn í sam­fé­lagið. Því ef sam­fé­lagið út­skúf­ar ein­hverj­um al­ger­lega, þá vek­ur það and­fé­lags­lega hegðun og þannig erum við að ýta und­ir frek­ari af­brot.“

Hatrið eykst

Held­urðu að al­menn­ing­ur sé mót­tæki­leg­ur fyr­ir slík­um hug­mynd­um um mildi gagn­vart fleiri og harðari glæp­um?

„Ég vona það og held að skyn­sama fólkið sé minna að öskra á net­inu. Það þegir op­in­ber­lega en er dug­legt að koma til mín úti í búð og þakka mér fyr­ir eitt og annað sem ég segi.

En ef það fólk þegir, sem ekki tel­ur að all­ir sem fædd­ust í út­lönd­um séu vont fólk, finnst að af­brota­fólk eigi að fá annað tæki­færi eða styður hinseg­in sam­fé­lagið, þá erum við að „normalísera“ hatrið í ís­lensku sam­fé­lagi.“

Held­urðu í al­vöru að hatrið sé að aukast?

„Já. Ég finn það. Ég finn það mjög sterkt.

Ég vil kalla þetta Trump-áhrif­in. Hann komst upp með alls kon­ar ósann­indi, að ég held gegn betri vit­und. Mér finn­ast ein­staka stjórn­mála­menn, líka hér á landi, tala gegn betri vit­und til þess að ýta und­ir andúð á ein­stök­um minni­hluta­hóp­um.“

Varla er hann fyrsti stjórn­mála­maður­inn til að skruma?

„Nei, en hann var Banda­ríkja­for­seti og sjón­varps­stjarna með mjög sterka rödd.

Ég hef líka haft sterka rödd, al­veg frá því ég gekk hér inn, en líka verið þess meðvituð að ég þyrfti að fara vel með hana. Ef þing­menn, sem fá hér ákveðið svið, ætla ekki að nota það til þess að mót­mæla þegar gengið er hart fram gegn minni­hluta­hóp­um þá tap­ar sam­fé­lagið. Það er ekki hægt að þegja sig út úr slíku.“

Finnst þér slík þögn há­vær?

„Mér finnst of marg­ir þing­menn velja það að þegja. Þessi minni­hluta­mál eru „heit kart­afla“ eins og sagt er, en það sem sagt er upp­hátt er ekki alltaf satt og rétt.“

Er fólk orðið værukær­ara gagn­vart mann­rétt­ind­um?

„Já og nei, umræðan er líka kröft­ug með mann­rétt­ind­um, en það hef­ur orðið ákveðið bak­slag.“

Þú sagðir að þú vær­ir ekki hætt í Sam­fylk­ing­unni þótt þú vær­ir að hætta á þingi og það er auðheyrt að þú hugs­ar mjög mikið um póli­tík, held­urðu áfram á vett­vangi flokks­ins?

„Ég verð ekk­ert minna póli­tísk og ef fólk kær­ir sig um það, þá mun ég ekki láta mitt eft­ir liggja inn­an flokks­ins eða ann­ars staðar.

En næsta kastið þarf ég að ein­beita mér að því að opna stof­una mína, bera skrif­borðið henn­ar mömmu inn á nýj­an stað á Hafn­ar­torgi og kom­ast í gang sem praktíser­andi lögmaður. Ég hlakka mjög mikið til. Get eig­in­lega ekki beðið!“

Andrés Magnússon - ljósmynd Eyþór Árnason

Æviágrip á vef Alþingis

Smelltu hér til að skoða æviágrip á vef Alþingis
Opna

Fylgstu með

Skráðu þig á póstlistann hjá mér og fylgstu með þeim málefnum sem ég er að vinna að hverju sinni.
Skrá mig
linkedin facebook pinterest youtube rss twitter instagram facebook-blank rss-blank linkedin-blank pinterest youtube twitter instagram