Almenningur veit sínu viti

Evrópuumræðan er á fleygiferð eins og alla jafna þegar harðnar í ári. Þegar verðbólgudraugurinn stígur dans, vextir hækka upp úr öllu valdi og krónan hrynur þá finnum við, sem lifum í íslenska efnahagsumrótinu það verðulega á eigin skinni. Þess vegna er ekkert óeðlilegt að umræðan um aukið samstarf Íslands við Evrópu komist á flug. Það gerir umræðuna ekki ómarktækari að hægt sé að vísa í staðreyndir úr okkar daglega lífi um leið og talað er fyrir þeirri kröfu að þjóðin fái að greiða atkvæði um áframhaldandi aðildarviðræður við bandalagsþjóðir okkar í Evrópu.

Bandalagsþjóðir okkar já, því við erum nú þegar í sambandi við þessar þjóðir í gegnum samninginn um evrópska efnahagssvæðið og hvað sem úrtöluraddir halda fram þá sést það á margvíslegan hátt hvað sá samningur og fleiri sem við höfum gert við Evrópuríkin hefur gert íslensku samfélagi gott. Þannig erum við aðilar að Evrópuráðinu og mannréttindasáttmála Evrópu og til mannréttindadómstólsins leitar fjöldi Íslendinga sem telur sig ekki hafa fengið réttláta málsmeðferð fyrir íslenskum dómstólum. Við sækjum einnig störf og nám í Evrópu auk þess sem hingað hafa ratað margvíslegar umbætur á íslensku stjórnkerfi.

En það þarf að stíga næsta skref því ástandið í dag sýnir okkur svart á hvítu að við þetta verður ekki búið lengur. Verðbólgan á Íslandi í dag er rúm 10% og þau okkar sem þurfa að greiða af húsnæðis- náms- og öðrum lánum bíða óttaslegin eftir næstu hækkun stýrivaxa. Þrátt fyrir að við séum óháð öðrum ríkjum með orku ráða stjórnvöld ekki við neitt. Okkar græna orka ætti að tryggja okkur mun lægri verðbólgu en Evrópuríkin eru að fást við, en nei, við njótum bara ekkert góðs af því enda húsnæðisliðurinn stór þátttakandi í hækkandi verðbólgu. Stjórnvöld standa hins vegar ráðalaus og horfa á  vexti hækka, húsnæðismarkaðinn í viðvarandi vanda og krónuna lækka svo mjög að það hefur ruðningsáhrif út í allan kostnað, hvort sem horft er til innkaupa heimila eða kostnað við stórar framkvæmdir á vegum ríkis og sveitarfélaga. Slíkar stórframkvæmdir verða æ kostnaðarsamari sem svo aftur leiðir til hærri gjalda fyrir okkur íbúa landsins. Erlendir aðilar veigra sér svo við að fjárfesta á landi síkvikrar örmyntar enda fyrirsjáanleikinn lítill sem enginn.

Ég er þess fullviss að almenningur mun styðja áframhaldandi viðræður við Evrópusambandið verði hann spurður. Ég er þess líka fullviss að ef drög að samningi verða landi og þjóð ekki hagfelld þá mun hinn sami almenningur einfaldlega hafna samningsdrögunum. Hvers vegna stjórnvöld þora ekki að kanna hvað fæst með aukinni Evrópusamvinnu fæst ekki skýrt nema með sérhagsmunatengslum stjórnarflokka sem þurfa ekkert að óttast nema almenning sem veit sínu viti.  

Æviágrip á vef Alþingis

Smelltu hér til að skoða æviágrip á vef Alþingis
Opna

Fylgstu með

Skráðu þig á póstlistann hjá mér og fylgstu með þeim málefnum sem ég er að vinna að hverju sinni.
Skrá mig
linkedin facebook pinterest youtube rss twitter instagram facebook-blank rss-blank linkedin-blank pinterest youtube twitter instagram