Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 9. febrúar 2021
Senn er komið ár síðan heimsfaraldur kórónuveiru skall á landinu. Áður en til þess kom voru þegar farin að hrannast upp óveðursský á vinnumarkaði vegna versnandi stöðu í ferðaþjónustu með falli Wow, þannig að atvinnuleysi hafði þegar aukist, sér í lagi á tilteknum svæðum landsins.
Heimsfaraldurinn hefur kallað á snör viðbrögð stjórnvalda til verndar líkamlegu og geðheilbrigði þjóðar í baráttu við veiruna og ekki síður vegna þess áfalls og þjóðfélagsbreytinga sem skyndilega urðu. Faraldurinn hefur einnig kallað á snör viðbrögð stjórnvalda vegna þess mikla efnahagsáfalls sem faraldurinn hefur leitt yfir landið með fjöldaatvinnuleysi sem eykst jafnt og þétt. Atvinnuþátttaka landsmanna 16-74 ára hefur ekki mælst minni hér á landi frá því mælingar hófust fyrir 30 árum. Í fyrsta sinn mælist atvinnuþátttaka undir 80%, hlutfall starfandi kvenna var um 71% og starfandi karla um 76% í lok árs. Þessi alvarlega staða birtist svo með misjöfnum hætti eftir landshlutum og er staðan langsamlega verst á þeim hluta landsins sem mest hefur sinnt þjónustu við Keflavíkurflugvöll. Atvinnuleysi á Suðurnesjum er svo alvarlegt að neyðaraðgerðir ættu að vera komnar á af hálfu stjórnvalda til fjölgunar starfa á svæðinu þar sem nærri fjórði hver einstaklingur er án atvinnu!
Atvinna, atvinna, atvinna, segir ráðherra ríkisstjórnarinnar en nú þegar nærri ár er frá fyrsta höggi er ekki laust við að maður spyrji sig hvort ríkisstjórnin sé algjörlega ráðþrota þegar kemur að fjölgun starfa á fjölbreyttum vettvangi. Við vitum að þegar ferðamannabylgjan skall á okkur eftir gosið í Eyjafjallajökli vorum við algjörlega óundirbúin undir flóðið. Innviðir ferðaþjónustu voru veikburða og kallað eftir uppbyggingu þeirra og stefnu stjórnvalda í ferðamálum. Lítið hefur til þess spurst og ekkert núna á þeim tíma sem hægðarleikur er að ráðast í meiriháttar framkvæmdir á meðan ferðamenn sitja heima. Hvar er ráðherra nýsköpunar, atvinnuvega og ferðamála á tólfta mánuði atvinnukreppu? Alls hafa 98 ráðningarstyrkir verið veittir á árinu en í desember kom fram að lítil sem engin kynning hefði verið á því átaki af hálfu hins opinbera og umsóknir því fáar. Það að sitja með hendur í skauti og bíða eftir næstu bylgju ferðamanna er bara alls ekki boðlegt af hálfu ríkisstjórnar í atvinnukreppu. Undirmönnun í heilbrigðisþjónustu er staðreynd sem hægt væri að bregðast við með auknu fjármagni. Stuttur afgreiðslutími og óralöng bið á símalínu Vinnumálastofnunar bendir til undirmönnunar þar líka. Uppbygging á innviðum í ferðaþjónustu kallar á margskonar störf. Ríkisstjórnin þarf að fara fram með góðu fordæmi og skapa bæði opinber störf og hvata til aukinna starfa í einkageiranum með margvíslegum hætti.