Axlar ráðherra ábyrgð sína?

Fyrir rúmu ári fór fram umræða á Alþingi um söluna á hlut ríkisins í Íslandsbanka. Þá þegar var komið í ljós að ýmislegt hafði misfarist, skýrum lögbundnum reglum hafði ekki verið fylgt og nokkurt tjón virtist hafa orðið á hagsmunum almennings við söluna.

Skiptar skoðanir voru meðal þingmanna um það hvort vel eða illa hefði gengið. Stjórnarliðar sögðu engin lög hafa verið brotin, sumir sögðust vilja velta við hverjum steini og aðrir sögðu umræðuna vera dæmigert upphlaup stjórnarandstöðunnar sem skildu bara ekki snilldina á bakvið þennan fjármálagjörning fjármálaráðherra. Þá bentu þau á svokallaða armslengd ráðherrans en gerðu minna með lögbundnar skyldur hans við sölu á fjármálafyrirtækjum í eigu ríkisins.

Skýrsla ríkisendurskoðunar um framkvæmd sölunnar kom svo fram á haustmánuðum og mátti þar sjá fjölmargar alvarlegar athugasemdir við framkvæmd hennar. Tók embættið þó fram að það teldi ekki í sínum verkahring að skera úr um hvort lög hefðu verið brotin, slíkt væri dómstóla að gera, en að ljóst væri að skýrum reglum og góðum viðskiptaháttum hefði ekki verið fylgt. Upphrópanir stjórnarliða hófust um að embætti ríkisendurskoðunar hefði staðfest að salan hefði verið samkvæmt lögum og var vísað í bjagaða skýringu þeirra sjálfra á ofangreindum orðum embættisins. Aftur sögðu einstaka þingmenn VG, að öllum steinum skyldi velt við, bara ekki núna.

Nú fyrir helgi birtist svo tilkynning um að sátt hefði náðst milli Fjármálaeftirlits Seðlabankans og Íslandsbanka um sektargreiðslu vegna alvarlega brota bankans sem annaðst hluta framkvæmdar útboðs á hlutum Íslandsbanka fyrir hönd fjármálaráðherra. Ekki er hægt að líta á fjárhæðina sem eðlilegan fórnarkostnað við svo mikilvæga sölu enda um hvorki meira né minna en tæpar tólf hundruð milljón króna sekt vegna alvarleika brotanna.

Bæði forsætisráðherra og menningar- og viðskiptaráðherra hafa ítrekað sagt fjármálaráðherra hafa axlað ábyrgð á mistökum sínum vegna sölunnar en lagaleg og pólitísk ábyrgð fjármálaráðherra er vandlega skrifuð í lög um sölu ríkisins á fjármálafyrirtækjum. Mistökin við söluna fólust m.a. í að ekki var gætt jafnræðis við söluna, að veittur var mikill afsláttur þrátt fyrir umframeftirspurn eftir hlutum í bankanum á hærra verði og loks því að upplýsingagjöf til þingnefnda og almennings var ábótavant. Bankasýslan annaðist framkvæmdina en ráðherra bar að taka ákvarðanir um hvert einasta skref sölunnar, allt í samræmi við meginreglur laganna um hlutlægni, hagkvæmni og jafnræði. Það gerði hann ekki og á því ber fjármálaráðherra ábyrgð. Hann ber líka ábyrgð á slökum vinnubrögðum undirstofnunar sinnar, bankasýslunnar, skv. almennum reglum stjórnskipunarréttarins.

Mun hann axla þá ábyrgð?

Æviágrip á vef Alþingis

Smelltu hér til að skoða æviágrip á vef Alþingis
Opna

Fylgstu með

Skráðu þig á póstlistann hjá mér og fylgstu með þeim málefnum sem ég er að vinna að hverju sinni.
Skrá mig
linkedin facebook pinterest youtube rss twitter instagram facebook-blank rss-blank linkedin-blank pinterest youtube twitter instagram