Gleðilega hátíð! Hinsegin dagar standa nú yfir með metnaðarfullri og skrautlegri dagskrá fyrir alla sem hana vilja sækja. Gleðigangan verður gengin í dag eftir tveggja ára Covid-hlé og nú sem fyrr er mikilvægt að við sem eigum heimangengt mætum öll og sýnum í verki stuðning okkar við hinsegin samfélagið. Það hefur orðið merkjanlegt bakslag í baráttunni fyrir réttindum hinsegin fólks um allan heim og það bakslag sést einnig hér á landi. Þess vegna skiptir máli að spyrna hraustlega við fótum og sýna að við stöndum enn með fjölbreytileikanum í allri sinni dýrð.
Þetta er ekkert flókið. Við erum að standa vörð um réttindi hinsegin fólks hérlendis en um leið erum við að senda skýr skilaboð til umheimsins um að hér á landi sé opið og frjálst samfélag. Ofbeldisglæpum gegn hinsegin fólki fjölgar og þeir glæpir eru einnig að koma meira upp á yfirborðið með aukinni viðurkenningu ákveðinna hópa um heim allan á hatursorðræðu og hatursglæpum í garð hinsegin fólks. Í sumum ríkjum heims eru það svo stjórnvöld sem ganga harðast fram í fordæmingum, refsingum já og jafnvel með dauðarefsingum gagnvart hinsegin fólki.
Hér á landi má heyra aukna umræðu um að skilgreiningar á kynhneigð eða kynvitund „sé bara orðin alveg óskiljanleg“ og er þá tóninn sem sleginn er því miður oft á þá leið að þar með sé það eitthvað sem sé óleysanlegt og til baga fyrir samfélagið. Eitthvað sem þurfi að takmarka og ná böndum yfir. En lausnin á því þegar eitthvað er okkur framandi er auðvitað ekki að banna það, fordæma eða takmarka sjálfsagðan rétt fólks heldur þurfum við sjálf að fræðast. Þegar við skiljum ekki þá þurfum við að spyrja og læra, ekki útiloka og fordæma. Þegar við skiljum ekki orðin sem notuð eru þá skulum við, í stað þess að hrista haus, spyrja hver merkingin er og hvernig eigi að nota orðið. Það er heilbrigt og gott fyrir samfélagið að fá upp slíka umræðu í stað þess að slökkva hana því þá munu fleiri heyra og læra. Ný orð eru stundum framandi en þá þarf að læra og skilja. Það getum við öll ef við bara viljum og það eigum við að gera því fordómar byggjast á fáfræði.
Við erum bara eins og við erum og óskum eftir því að vera viðurkennd á þann máta óháð kyni, aldri, kynhneigð, stétt eða hvaða skilgreiningu sem tína má til. Við viljum njóta sömu réttinda án fordæminga eða útúrsnúninga í opinberri umræðu og ég held að við hljótum öll að vera sammála um að þannig samfélag viljum við byggja hér á landi. Þegar manneskjan á næsta borði byrjar að ræða hvað þetta sé nú allt orðið flókið og ómögulegt með þessa kynvitund og hneigð skulum við hjálpa til við fræðsluna í kærleika því hún vill örugglega vera eins og hún er rétt eins og við öll, án ofsókna og fordæmingar. Gerum þetta saman.