Einbjörn bendir á Tvíbjörn

Það er engin lognmolla á stjórnarheimilinu þessa dagana. Innanmeinin innan stjórnarflokkanna og þeirra á milli eru komin fram í dagsljósið og þekja fréttatímana á þeim tímum sem almenningur ætti alla jafna að vera áhyggjulaus í sumarfríi. Reyndar virðist framsóknarflokkurinn vera í fríi, en það er kannski bara til bóta.

En það eru ekki innanbúðarkrísur í ríkisstjórnarflokkunum sem helst valda íbúum landsins áhyggjum. Það er óstjórnin í efnahagsmálum í stjórnartíð þessara sömu flokka. Verðbólgan er órafjarri markmiðum Seðlabankans, sem boðar enn eina stýrivaxtahækkunina í ágúst, að þessu sinni vegna mögulegs ófriðar á vinnumarkaði á komandi hausti. Ófriðar sem má rekja til óstjórnar í efnahagmálum síðustu 6 ár, eða frá því að ríkisstjórn Vinstri grænna, Sjálfstæðisflokks og Framsóknar tók við haustið 2017. Sama ríkisstjórn og hélt flugeldasýningu við gerð lífskjarasamninga en gleymdi svo að standa við sinn þátt samninganna.

Viðbrögð ráðherra ríkisstjórnarinnar við ástandinu í efnahagsmálum minna á þjóðsöguna um þá bræður Einbjörn, Tvíbjörn og Þríbjörn enda virðist enginn ætla sér að taka ábyrgð á óstjórninni heldur finna sér nýtt og nýtt mál til að magna upp óþolið hvert í garð annars. Næsta stýrivaxtahækkun, komandi fjárlög sem væntanlega innihalda niðurskurð á mikilvægum þáttum og möguleg ólga á vinnumarkaði er ekki umræðuefni dagsins heldur það hvort einn stjórnarflokkur fær öll gælumál sín samþykkt, eins og rannsóknarheimildir lögreglu án aðkomu dómstóla eða áframhaldandi hvalveiði án lagastoðar. Stjórnmálafólk sem nú geysist fram í hvert viðtalið á fætur öðru virðist hins vegar litlar áhyggjur hafa af kjörum almennings í landinu sem nú um mánaðarmótin fékk að líta enn hærri reikninga fyrir húsnæði, hvort sem um var að ræða leigureikninga eða vegna íbúðarlána sem hafa hækkað jafnt og þétt undanfarið ár. Svimandi há verðbólga og stýrivaxtahækkanir virðast ekki innan áhugasviðs þeirra né heldur hækkandi verð á matvöru og allri þjónustu þannig að fólk á meðallaunum er farið að finna verulega fyrir óstjórninni í hverjum mánuði, hvað þá fólk á lægri launum sem getur ekki leyft sér nauðsynjar eins og læknisþjónustu og lyfjaúttektir.

Þarna er ekki verkalýðshreyfingunni um að kenna, enda gætir hún hagsmuna hins vinnandi fólks sem þarfnast liðsinnis vegna óstjórnarinnar, heldur má kenna um stjórnmálafólki sem virðist ekki í neinum tengslum við hagsmuni almennings í landinu.

Ég held að farsælla væri að stjórnmálafólk færi nú að einbeita sér að því að ná hér niður verðbólgu og tryggja grunninnviði landsins í þágu almennings svo hér verði rekið gott og heilbrigt velferðarsamfélag ella fái þau öðrum sem treysta sér í þá vinnu lyklana að stjórnarráðinu.   

Æviágrip á vef Alþingis

Smelltu hér til að skoða æviágrip á vef Alþingis
Opna

Fylgstu með

Skráðu þig á póstlistann hjá mér og fylgstu með þeim málefnum sem ég er að vinna að hverju sinni.
Skrá mig
linkedin facebook pinterest youtube rss twitter instagram facebook-blank rss-blank linkedin-blank pinterest youtube twitter instagram