Er fjármálaráðherra búinn að axla ábyrgð?

Vönduð skýrsla Ríkisendurskoðunar kom fyrir sjónir almennings og þingheims í vikunni. Þar er farið yfir söluferil á eignarhluta almennings í Íslandsbanka. Sölu verðmæta sem líklega skiluðu á þriðja milljarði lægri fjárhæð í ríkiskassann en ef vel hefði verið staðið að verki.

Í umræðu um málið síðustu tvo daga hafa ráðherrar í ríkisstjórn komið fram einn af öðrum og sagt fjármálaráðherra hafa axlað ábyrgð sína á mistökum sínum vegna sölunnar. Mistökum sem fólust í að ekki var gætt jafnræðis við söluna, að veittur var mikill afsláttur þrátt fyrir umframeftirspurn eftir hlutum í bankanum á hærra verði og því að upplýsingagjöf til þingnefnda og almennings var ábótavant.

Skýrsla ríkisendurskoðunar er nefnilega skýr með þessa þætti en lagaleg og pólitísk ábyrgð fjármálaráðherra á ferlinu og þeim ákvörðunum sem hann tók eru líka skýrar. Með lögum um sölumeðferð eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum er ábyrgð fjármálaráðherra við sölu á fjármálafyrirtækjum lögfest. Bankasýslan annast framkvæmd sölunnar en það er ráðherra sem tekur ákvarðanir um hvert einasta skref sölunnar. Allt skal það svo gert í samræmi við meginreglur laganna um hlutlægni, hagkvæmni og jafnræði. Það tókst ekki og á því ber fjármálaráðherra ábyrgð. En hann ber líka ábyrgð á slökum vinnubrögðum undirstofnunar sinnar, bankasýslunnar, skv. almennum reglum stjórnskipunarréttarins. Milljarða tjón almennings blasir við, tjón sem hægt hefði verið að hindra með vönduðum og lögbundnum vinnubrögðum.

„Það þarf að fara eftir lögunum, jafnvel þótt maður sjálfur hafi greitt atkvæði gegn þeim fyrir tíu árum síðan“ benti Oddný Harðardóttir þingmaður Samfylkingarinnar og fv. fjármálaráðherra á í umræðum á Alþingi. Því þótt að það „falli utan hlutverks Ríkisendurskoðunar að taka afstöðu til ágreiningsefna um lagatúlkun“, eins og kemur fram í skýrslu Ríkisendurskoðanda, þá er hægt að segja fullum fetum að ekki hafi verið farið að meginreglum laga um sölu ríkisins á fjármálafyrirtækjum eins og að ofan greinir og á því ber ráðherra ábyrgð.

Forsætisráðherra sagði á Alþingi að fjármálaráðherra hefði axlað ábyrgð sína með því að birta lista yfir kaupendur síðastliðið vor og viðskiptaráðherra sagði hann hafa axlað ábyrgð með því að hafa beðið ríkisendurskoðun um að gera skýrslu. Þær viðurkenna þar með ábyrgð ráðherra en er nóg að sá sem veldur slíku tjóni sem fyrir liggur fái einhvern til að staðfesta tjónið og gangi svo áfram til sinna starfa eins og ekkert hafi í skorist? Er það að axla ábyrgð? Hvaða skilaboð sendum við umheiminum um stjórnmála- og fjármálakerfið á Íslandi? Er stjórnvöldum alveg sama um orðspor Íslands í alþjóðasamfélaginu? Vita stjórnvöld ekki hvaða afleiðingar slíkt getur haft?  

Æviágrip á vef Alþingis

Smelltu hér til að skoða æviágrip á vef Alþingis
Opna

Fylgstu með

Skráðu þig á póstlistann hjá mér og fylgstu með þeim málefnum sem ég er að vinna að hverju sinni.
Skrá mig
linkedin facebook pinterest youtube rss twitter instagram facebook-blank rss-blank linkedin-blank pinterest youtube twitter instagram