Er heilbrigðiskerfið botnlaus hít?

Enn einar kosningar er staðan í heilbrigðiskerfinu aðalmálið. Fyrir fimm árum safnaði Kári Stefánsson nærri 90 þúsund undirskriftum fyrir átaki í þágu heilbrigðiskerfisins. Síðan eru liðnar tvennar kosningar og flokkarnir lofuðu því að farið yrði í stórátak.

Nú í lok kjörtímabils blasir við að við þurfum að gera miklu betur en stjórnarflokkar treysta sér til þegar kemur að uppbyggingu og skipulagi á heilbrigðiskerfinu. Fréttir hafa borist allt kjörtímabilið um skort á hjúkrunarrýmum, mönnunarvanda, flótta sérfræðinga úr opinbera kerfinu yfir í einkarekstur, biðlista um allt kerfið, fjárskort, ólestur í legháls- og brjóstaskimunum og hættuástand á bráðamóttöku.

Það er alveg rétt að það er ekki bara hægt að setja meiri fjármuni en það verður hins vegar að setja meiri fjármuni í heilbrigðiskerfið. Það er hins vegar ekki sama hvernig það er gert og hvar. Ríkisstjórnina skortir hvort tveggja yfirsýn og heildarstefnu, þrátt fyrir samþykktir prýðilegra þingsályktunartillagna um heilbrigðiskerfið, því framkvæmdin hefur einfaldlega ekki fylgt hugmyndum hinna ólíku flokka sem mynda nú ríkisstjórn. Það þarf stórátak í heilbrigðiskerfinu og segja má að það ríki beinlínis þjóðarsátt um að því stórátaki verði hrundið af stað. Stjórnmálin skulda þjóðinni það að standa við þá þjóðarsátt.

Ísland leggur töluvert minni fjármuni inn í heilbrigðiskerfið en samanburðarríki. Sem hlutfall af vergri landsframleiðslu erum við langt fyrir neðan Norðurlöndin og þannig hefur það verið lengi. Þegar við ræðum nauðsyn þess að auka fjármagn erum við að tala um mönnun, því við löðum ekki starfsfólk inn í kerfið ef við ætlum að keyra það áfram á láglaunastefnu og ófullnægjandi starfsaðstæðum. Það að stjórnvöldum hafi ekki tekist að gera kjarasamninga við hjúkrunarfræðinga sem ekki einu sinni heldur tvisvar hafa fengið á sig gerðardóm er merki um virðingarleysi stjórnvalda fyrir þessari stóru stétt sem heldur heilbrigðiskerfinu gangandi. Eftir að gerðardómur hinn síðari féll var ljóst að rekstrarkostnaður á Landspítala og öðrum heilbrigðisstofnunum myndi aukast, eins og alltaf þegar laun hækka, en í tilfelli Landspítala þá er þetta fjölmennasti vinnustaður landsins svo að fjárhæðir hækka verulega. Ríkisstjórnin bætti hins vegar spítalanum ekki upp aukið framlag svo þar þurfti að finna þá fjármuni með öðrum ráðum. Hvatakerfi til að laða að starfsfólk var fellt niður og mönnunarvandinn jókst.

Það eru verkin sem mennirnir verða dæmdir af, ekki fögur orð í kosningabæklingum. Við þurfum að efna þjóðarsáttina um sterkt heilbrigðiskerfi og það erum við í Samfylkingunni tilbúin að gera.

Æviágrip á vef Alþingis

Smelltu hér til að skoða æviágrip á vef Alþingis
Opna

Fylgstu með

Skráðu þig á póstlistann hjá mér og fylgstu með þeim málefnum sem ég er að vinna að hverju sinni.
Skrá mig
linkedin facebook pinterest youtube rss twitter instagram facebook-blank rss-blank linkedin-blank pinterest youtube twitter instagram