Heilbrigðiskerfið er lífæð samfélagsins. Við treystum á að fá góða þjónustu þegar á reynir og allar kannanir sýna að almenningur á Íslandi vill sterkt opinbert heilbrigðiskerfi. Það þarf hvort tveggja að fjármagna með fullnægjandi hætti en einnig skipuleggja svo hver og ein heilbrigðisstofnun um allt land nýtist sem best og geti starfað sem skyldi.
Oft er talað um „vanda Landspítalans“ og „vanda bráðamóttökunnar“ eins og um sé að ræða einangruð fyrirbæri. Umræddur vandi er hins vegar birtingarmynd heilbrigðiskerfis í vanda. Eða við ættum kannski að segja, birtingarmynd óstjórnar á heilbrigðiskerfinu. Þessi óstjórn verður ekki bara skrifuð á heimsfaraldur heldur voru birtingarmyndir óstjórnar komnar fram fyrir faraldur. Í byrjun árs 2020 lagði Velferðarnefnd Alþingis undir minni stjórn í heildarskoðun á heilbrigðiskerfinu um allt land. Lykilaðilar voru boðaðir á fund, við fjölluðum m.a. um sjúkrahúsin, héraðssjúkrahúsin, öldrunarstofnanir, heilsugæslu og sjálfstætt starfandi veitendur heilbrigðisþjónustu. Þetta var mjög fræðandi yfirferð fyrir okkur og að mínu mati opinberaðist að það sem vantar við stjórnun heilbrigðiskerfisins er heildarsýn á útdeilingu verkefna. Við erum að vanfjármagna heilbrigðisstofnanir um landið þannig að þær neyðast til að skera niður þjónustu sem áður var veitt. Sjúklingarnir streyma því á stóra þjóðarsjúkrahúsið sem getur ekki synjað fólki um þjónustu og setur það því á biðlista með tilheyrandi tjóni fyrir alla. Spítalinn verður yfirfullur af fólki sem ekki þarf á 3. stigs heilbrigðisþjónustu að halda en þarf þó þannig þjónustu að það getur ekki útskrifast. Þetta bitnar á því fólki, öðrum sjúklingum og starfsfólkinu öllu og smitast svo út í heilbrigðiskerfið. Nú bætast við uppsagnir starfsfólks í hrönnum eins og fréttir síðustu daga bera með sér og þá eykst vandinn gríðarlega.
Höfuðborgarsvæðið, með nærri 250 þúsund íbúa auk ferðamanna er eini landshlutinn sem ekki hefur héraðssjúkrahús. Ég held að þar liggi mögulega „vandi Landspítala“ því Landspítala Háskólasjúkrahúsi, sem er ætlað að vera rannsóknar- og hátæknisjúkrahús, er einnig ætlað að sinna minni háttar aðgerðum eins og að sauma skurði og sækja legókubba í nasir barna sem og hlúa að öldruðum. Ég tel að við eigum af alvöru að skoða hvort ekki sé rétt að endurreisa héraðssjúkrahúsið okkar, sinna þar þeim aðgerðum sem héraðssjúkrahús sinna almennt og gefa Landspítala færi á að vera í fremstu röð hátæknisjúkrahúsa á nýjan leik. Við opnun nýs meðferðarkjarna má sjá fyrir sér héraðssjúkrahús í Fossvogi líkt og áður var. Samhliða þessu þarf að nýta heilbrigðisstofnanirnar um allt land betur, veita fjármagni til verkefna sem þau geta sinnt og létta á kerfinu öllu.