Er lögbrot frétt?

Á hverjum degi eru fjölmiðlar að fjalla um flókin mál, þar á meðal lögbrot. Það þykir fréttnæmt þegar brot eru framin og það þykir einnig fréttnæmt þegar möguleiki er á að brot hafi verið framin ef um er að ræða stóran aðila í opinberri umræðu.

Þessa dagana á sér stað umræða á Alþingi, líkt og oft áður, um spillingu í íslensku samfélagi og traust á  stjórnmálum. „Að gefnu tilefni“ mætti segja vegna síendurtekinna frétta af meintum brotum stjórnenda íslensks stórfyrirtækis á góðum viðskiptaháttum, lögum um mútugreiðslur, skattalögum og fleira.

Einhverjir vilja meina að fjölmiðlar eigi ekki að fjalla um þetta stóra mál þar sem ekki sé komin niðurstaða fyrir dómi um sekt eða sýknu. Þannig virðist í þessu máli eins og frasinn um að einhver sé saklaus uns sekt sé sönnuð leiði sjálfkrafa til þess að ekki megi ræða þær fréttir sem þó hafa borist. Hafa verður í huga að það er jú hlutverk fjölmiðla að flytja fréttir og ef íslenskt stórútgerðarfyrirtæki er til rannsóknar víða um  heim vegna meintra brota á hinum ýmsu lögum þá er það frétt. Það verður svo að sjálfstæðum fréttum hvernig einstaka stjórnendur, stjórnmálamenn og ráðherrar blandast inn í málið á degi hverjum. Það er nefnilega frétt ef ráðherra er að leiðbeina fólki í stríði um það hvernig á að hegða sér gegn meintum óvinum.

Já, á Alþingi er verið að ræða um spillingu og traust á stjórnmálum en skilaboðin sem komið hafa frá æðstu ráðamönnum þjóðarinnar á kjörtímabilinu hafa því miður ekki orðið til að auka traust á stjórnmálum. Þegar seðlabankastjóri tjáði sig í fjölmiðlum um ítök sérhagsmuna í íslensku samfélagi setti forsætisráðherra ofan í við blaðamann að hafa ekki spurt hvað seðlabankastjóri ætti nákvæmlega við, án þess að hún teldi ástæðu til að bregðast efnislega við orðum bankastjórans.

Þegar nefndarfólk í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd vildi að fram færi rannsókn á tengslum sjávarútvegsráðherra við stjórnendur stórútgerðarinnar, sem nú eru í stríði, þá beita stjórnarþingmenn í nefndinni valdi sínu til að stöðva slíka rannsókn.

Þegar dómstólar fella dóma þess efnis að dómsmálaráðherra hafi brotið lög við skipan sérvalinna dómara í Landsrétt standa stjórnarliðar sérstakan vörð um ráðherrann og meta stöðu hans í rikisstjórn mikilvægari en vörn fyrir sjálfstæði dómstóla.

Þessa dagana á sér stað stríð sem opinberast æ meira á hverjum degi gegn almenningi, fjölmiðlafólki, listamönnum, stjórmálafólki og fjölskyldum þeirra. Sá sem af stríðsherra er kallaður „okkar maður í ríkisstjórn“ er á útleið, og fram fer val herrans á nýjum manni og forsætisráðherra vill að blaðamenn spyrji seðlabankastjóra út í hvað hann eigi við þegar hann ræðir spillingu.

Æviágrip á vef Alþingis

Smelltu hér til að skoða æviágrip á vef Alþingis
Opna

Fylgstu með

Skráðu þig á póstlistann hjá mér og fylgstu með þeim málefnum sem ég er að vinna að hverju sinni.
Skrá mig
linkedin facebook pinterest youtube rss twitter instagram facebook-blank rss-blank linkedin-blank pinterest youtube twitter instagram