Er þetta misskilningur?

Íslenskan er mitt hjartans mál, fullyrðir Lilja Alfreðsdóttir menntamálaráðherra á sama tíma og hún tekur ákvörðun um 500 milljón króna niðurskurð á framlögum til íslenskrar sjónvarps- og kvikmyndagerðar. Hún, já, því þegar tekin er ákvörðun um framlag til lista og menningar þá er það ráðherrann sem kemur fram og segist hafa tekið ákvörðun um framlag og því verður að segjast eins og er að það er flókið ef ráðherrann ætlar svo skrifa niðurskurðinn alfarið á fjármálaráðherra, eða hvað?

En ráðherrann sagði ekki bara að íslenskan væri hennar hjartans mál, hún sagði einnig að „þetta væri bara einhver misskilningur hjá okkar framúrskarandi kvikmyndagerðarfólki“ þegar hörð gagnrýni barst frá kvikmyndageiranum vegna nærri þriðjungs niðurskurðar til Kvikmyndasjóðs Íslands og rúmlega þriðjungs niðurskurðar til Kvikmyndamiðstöðvar á næsta ári.

Fyrir liggur samþykkt kvikmyndastefna til ársins 2030 sem þótti mikið framfaraskref þegar hún var kynnt í lok síðasta kjörtímabils. Þar var stefnan tekin á framtíðarskipulag íslenskrar kvikmynda- og sjónvarpsþáttagerðar, eyrnamerkingu fjármuna og verulega aukningu framlaga til annars vegar Kvikmyndasjóðs Íslands og hins vegar til Kvikmyndamiðstöðvar Íslands vegna nýrra verkefna.

Er þetta misskilningur? Hvað varð um loforðin sem eru í kvikmyndastefnunni um verulega aukningu á framlögum til íslenskrar kvikmynda og sjónvarpsþáttagerðar?  

Í þeirri hörðu umræðu sem orðið hefur við framlagningu fjárlagafrumvarpsins hafa ráðherrarnir blandað saman framlögum úr Kvikmyndasjóði til íslenskrar kvikmynda- og sjónvarpsþáttagerðar og endurgreiðslum vegna erlendra verkefna sem unnin eru hér á landi. Þetta er tvennt gjörólíkt enda er í seinna tilvikinu aðallega um að ræða erlenda fjárfestingu, þjónustu innlendra aðila við kvikmyndagerðarfólk utan úr heimi, erlenda listamenn sem stýra verkinu, hanna leikmynd og búninga og leika öll helstu hlutverk. Ekki misskilja mig, þetta er mikilvæg innspýting inn í kvikmyndabransann en þetta er ekki framleiðsla á íslensku efni.

Ráðherrarnir þurfa einnig að átta sig á því að framlag úr Kvikmyndasjóði Íslands, sem er bara lítið brot af heildar framleiðslukostnaði við kvikmyndir og sjónvarpsefni er nær undantekningalaust forsenda þess að fjármagn komi úr erlendum sjóðum. Norrænir og Evrópskir sjóðir skoða fyrst hvort hinn íslenski sjóður hafi „vottað umsóknina“ með styrkveitingu áður en tekin er ákvörðun um styrki þaðan. Hinir norrænu og evrópsku styrkir eru svo grundvöllur þess að íslenskt efni sé yfirleitt framleitt.

Ef ráðherrum í ríkisstjórn er alvara með mikilvægi íslenskrar tungu þá er lykilatriði að falla frá þessum stórfellda niðurskurði til íslenskrar kvikmyndagerðar.

Æviágrip á vef Alþingis

Smelltu hér til að skoða æviágrip á vef Alþingis
Opna

Fylgstu með

Skráðu þig á póstlistann hjá mér og fylgstu með þeim málefnum sem ég er að vinna að hverju sinni.
Skrá mig
linkedin facebook pinterest youtube rss twitter instagram facebook-blank rss-blank linkedin-blank pinterest youtube twitter instagram