Þegar önnur bylgja Covid-19 skall á ströndum Íslands fannst glöggt hversu stuttur þráður var hjá þjóðinni fyrir afleiðingum hennar. Aftur og nýbúin urðum við öll almannavarnir. Sóttvarnarreglur voru hertar að nýju og við minnt á að öll skyldum við byrja heima, þvo, spritta og sleppa því að kjassa og hittast í hópum. Hópíþróttir lögðust af, mannfagnaður sömuleiðis og listviðburðum aflýst. Sem betur fer megum við fara í sund og göngutúra en verðum að gæta að tveggja metra reglunni og að nota andlitsgrímur sé ekki hægt að tryggja fjarlægðarmörk. Sé ekki farið eftir þessu má búast við sektarálagningu.
Þetta er hvorki einfalt verk né sjálfsagt. Þessar hertu reglur kalla á mikið skipulag í starfi um allt land. Skólafólk hamast við að skipuleggja haustið samkvæmt hertum reglum, ferðaþjónustuaðilar taka á móti afbókunum og endurskipuleggja starfið vegna nýrra reglna varðandi ferðamenn. Veitingafólk skutlar helmingi borða í geymslu, eykur bilið og fjölgar sprittbrúsum og þá er undirmönnuðu lögregluliði falið að fylgjast með að reglum sé fylgt. Reglum sem hafa því miður á undanförnum dögum orðið æ óskýrari af hálfu stjórnvalda, reglum sem taka breytingum eftir því hver skýrir frá og þol íbúa minnkar í samræmi við óskýrleika.
Á tyllidögum afhendir forseti Íslands þeim fálkaorðu sem þykja hafa skarað fram úr á sínu sviði. Þetta árið er ljóst að landsmenn hafa skarað fram úr á sínu sviði. Borgari landsins, sem á augabragði brást við ákalli stjórnvalda og gjörbreytti sínum lifnaðarháttum í vor þegar veiran barst til landsins. Landsmenn drógu sig í hlé, tóku tillit, virtu nálægðarmörk, skemmtanabann og sýndu í raun fádæma tillitssemi í samskiptum sín á milli. Öll vorum við jú almannavarnir.
Þegar almenningur mátti svo fara að tínast út á götu og ferðast um landið hvöttu stjórnvöld landsmenn til að styðja við innlenda ferðaþjónustu og var því svarað með hraði. Gististaðir fylltust, veitingastaðir um allt land voru bókaðir, zip-line á Vík, Stuðlagil, Vök böðin og Tjöruhúsið, allt var bókað vikum saman og fylgdumst við með ferðalögum landsmanna í gegnum fjölmiðla og samfélagsmiðla. Nú þegar almenningur þarf aftur að draga sig í skel og gæta strangari sóttvarna verða stjórnvöld að bera virðingu fyrir þeim fórnum sem landsmenn eru að færa. Það þarf að koma fram af virðingu þegar skyldur eru settar á herðar borgara um skerðingu á lífsgæðum. Það er ekki hægt að krefjast þess að almenningur gegni hlutverki almannavarna ef reglur eru óskýrar eða fálmkenndar. Stjórnvöld skulda almenningi afsökunarbeiðni á óskýrleika en ekki síður skal þakka almenningi fyrir vel unnin störf á síðustu vikum og mánuðum. Samstaða landsmanna er ekki sjálfsögð en mjög virðingarverð.