Fátæk börn þurfa fyrst að borga

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 21. janúar 2021

Í þeim heimsfaraldri kórónuveiru sem hefur markað líf okkar síðustu mánuði hafa stjórnvöld allra landa þurft að bregðast við með margvíslegum hætti. Ein af fjölmörgum aðgerðum hér á landi, sem Alþingi samþykkti í maí í fyrra, var að veita sérstakan styrk til íþrótta og tómstundastarfs barna sem koma frá tekjulágum heimilum. Atvinnuleysi er í sögulegu hámarki hér á landi og á ákveðnum svæðum er einn af hverjum fjórum einstaklingum án atvinnu. Inni á heimilum atvinnuleitenda búa börn og það er stjórnvalda að gera allt sem í þeirra valdi stendur til að vernda fyrst og fremst þau en einnig tryggja möguleika fjölskyldunnar til framfærslu.

Það var einmitt ætlunin með ákvörðun Alþingis að tryggja að öll börn, óháð efnahag, gætu stundað íþróttir og aðrar tómstundir síðastliðið sumar. Okkur var þá ókunnugt um að það tæki stjórnvöld heila sex mánuði að koma styrkjunum í framkvæmd.

Við í velferðarnefnd fjölluðum í upphafi haustþings um grafalvarlega stöðu mála á Suðurnesjum og fengum þá meðal annars þau svör að lítið væri um umsóknir um þessa styrki. Hvöttu nefndarmenn gesti fundarins til að leita allra leiða til að kynna úrræðið fyrir þeim börnum og fjölskyldum sem búa við fátækt því ástæðan fyrir því að þau væru ekki að nýta úrræðið var sögð ókunn. Töldum við ástæðuna mögulega liggja í skorti á kynningu úrræðisins.

Á vef Stundarinnar í gær birtist svo upplýsandi frétt um málið. Þar kemur fram sú skelfilega staðreynd að þetta úrræði virðist bara alls ekki vera að ná tilætluðum árangri. Aðeins 9% þeirra barna sem búa við fátækt hafa sótt um þennan styrk. Ástæðan virðist vera algjör forsendubrestur við útfærslu þessa úrræðis af hálfu stjórnvalda. Félags- og barnamálaráðherra átti að útfæra hvernig þessi styrkur yrði greiddur út. Flækjustigið hefur hins vegar orðið svo umfangsmikið að þau börn sem búa við fátækt geta ekki nýtt sér þetta. Þessi aðferð ráðherra, að gera fátæku fólki að greiða æfinga- og tómstundagjöld úr eigin vasa og þurfa að sækja um endurgreiðslu, er einfaldlega ekki eitthvað sem fátækt fólk getur gert. Fátækt fólk sem þarf að íhuga að morgni hvernig það kemur í veg fyrir að börn þeirra fari svöng í háttinn að kvöldi.

Því miður þá sýnir þetta eindæma skilningsleysi ríkisstjórnarinnar á þeim aðstæðum sem fjöldi fjölskyldna býr við á Íslandi í dag. Þetta eru aðstæður sem ættu sannarlega ekki að koma félags- og barnamálaráðherra á óvart enda greiðsluvandi fátækra fjölskyldna löngu þekktur. Það er lágmark að úrræði séu þannig búin að þau nýtist þeim hópum sem þurfa á því að halda. Það á að vera forgangsmál okkar allra að grípa þann hóp sem býr við verstu kjörin.

Æviágrip á vef Alþingis

Smelltu hér til að skoða æviágrip á vef Alþingis
Opna

Fylgstu með

Skráðu þig á póstlistann hjá mér og fylgstu með þeim málefnum sem ég er að vinna að hverju sinni.
Skrá mig
linkedin facebook pinterest youtube rss twitter instagram facebook-blank rss-blank linkedin-blank pinterest youtube twitter instagram