Ferðaþjónusta til framtíðar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 18. febrúar 2021

Ferðaþjónustan um allan heim hefur orðið fyrir slíku áfalli að stjórnvöld ríkja, sér í lagi þeirra sem byggja sitt efnahags- og atvinnulíf mikið á þessari atvinnugrein, verða að bregðast við með skýrum aðgerðum. Í kjölfar eldgoss í Eyjafjallajökli urðum við svo heppin að verða miðpunktur athygli ferðamanna frá öllum heimshornum. Fljótlega eftir að lækur ferðamanna varð að beljandi fljóti var rætt um skort á stefnu stjórnvalda í þessari stóru atvinnugrein. Rætt var um komugjöld, gistináttagjald og innviðauppbyggingu og sýndist sitt hverjum um hversu langt mætti ganga. Sveitarfélögin ræddu skarðan hlut sinn af þessum tekjum og var það verkefni óleyst þegar heimsfaraldur reið yfir. Núna bera sveitarfélögin höggið með stórauknu atvinnuleysi á öllum helstu svæðum ferðaþjónustu.

Stjórnvöld verða að stíga mjög fast til jarðar og skapa hér framtíð greinarinnar. Engin atvinnugrein hefur farið eins illa út úr Covid kreppunni og ferðaþjónustan, en ekki má horfa framhjá því að hún er líka sú atvinnugrein sem mun spila stærsta hlutverkið við að ná árangursríkum efnahagsbata og fjölgun starfa. Það er nefnilega þannig að þessi heimsfaraldur er líka faraldur mikils ójöfnuðar. Tekjufall er algjört hjá hluta mannkyns en annar hluti finnur sáralítið fyrir  efnahagslegum áhrifum faraldurs. Þeir efnameiri eru oftar en ekki þeir sem fara í lengri ferðir á dýrari áfangastaði eins og Íslands.

Grundvöllur farsældar okkar út úr heimsfaraldri felst í að stjórnvöld tryggi líf ferðaþjónustunnar. Þannig er brýnt að stjórnvöld stórauki fjárfestingar í innviðum ferðaþjónustu og styðji með ríkulegum hætti við lítil og meðalstór ferðaþjónustufyrirtæki í gegnum kreppuna. Það gerist ekki af sjálfu sér að þau standi af sér áfallið heldur verður að tryggja skýran ramma og stuðning. Tryggja verður að fyrirtæki um allt land, sem sköpuð voru af framtakssemi frumkvöðla í upplifun og ævintýrum, lognist ekki út af eða renni öll saman við hin vel stæðu stórfyrirtæki í ferðaþjónustu sem hafa greiðari aðgang að lánsfé. Það er sérstakt áhyggjuefni ef rétt er að risarnir á ferðaþjónustmarkaðnum séu að sölsa undir sig meira eða minna öll fyrirtækin því það skaðar stórlega samkeppni og minnkar fjölbreytileikann. Öll litlu og meðalstóru fyrirtækin, sem spruttu upp af nýjum hugmyndum skapandi fólks um allt land gera Ísland að ákjósanlegum áfangastað ævintýraþyrstra ferðalanga. Það eru þau fyrirtæki sem stjórnvöld eiga fyrst og fremst að huga að með skattaívilnun eða öðrum uppbyggilegum og styðjandi hætti. Loks verða stjórnvöld að huga að náttúru okkar og vernd hennar gegn ágangi ferðamanna. Treysta innviði svo við náum hvort tveggja að bjóða ferðafólk velkomið en um leið vernda viðkvæma náttúru.

Æviágrip á vef Alþingis

Smelltu hér til að skoða æviágrip á vef Alþingis
Opna

Fylgstu með

Skráðu þig á póstlistann hjá mér og fylgstu með þeim málefnum sem ég er að vinna að hverju sinni.
Skrá mig
linkedin facebook pinterest youtube rss twitter instagram facebook-blank rss-blank linkedin-blank pinterest youtube twitter instagram