Fíkn, geðheilbrigði og ráðherrar sem tala ekki saman.

Þegar okkur mistekst ætlunarverk okkar þurfum við að setjast niður og finna nýtt leikskipulag, hvort sem er í einkalífi okkar, við leik og störf eða rekstur samfélags.

Nú þurfum við saman að finna nýtt leikskipulag því okkur hefur mistekist að byggja hér upp velferðarsamfélag sem heldur utan um alla íbúa landsins. 

Fréttir af dauðsföllum vegna lyfjaeitrana og sjálfsvíga eru daglegar og eftir standa fjölskyldur og vinir gjörsamlega lömuð af sorg. Því áfalli sem samfélagið verður fyrir við hvert andlát má líkja við blæðandi sár. Það þýðir ekki að smella á litlum plástri og vona að það dugi til heldur þarf að skoða hvað veldur þessu blæðandi sári? Gerum við það með aukinni einstaklingshyggju þar sem hver hugsar um sig og sitt, aukinni hörku með refsingum og vopnaburði, með orðræðu um þau og okkur, eða munum við búa yfir því hugrekki að ráðast að rótum vandans og hefja alvöru sjálfskoðun á samfélagsgerðinni okkar?

Ríkisstjórnin verður að axla sína ábyrgð og þar er lykilatriði að ráðherrar tali saman. Að ráðherrar séu ekki að senda gjörólík skilaboð út í samfélagið, að einn ráðherra boði mildi á sama tíma og annar boðar meiri hörku. Að einn ráðherra auki skautun í samfélaginu með fordæmingu og refsistefnu á meðan annar talar um skaðaminnkun og þjónustu við fólk í vanda. Samfélagið horfir upp á þessa forystumenn tala út og suður um þau verkefni sem samfélagið stendur frammi fyrir og eftir stendur fólk í vanda og fjölskyldur í sárum. Við hljótum að geta gert þá kröfu að á ríkisstjórnarfundum sé lögð einhver lína um hvernig takast skal á við aðsteðjandi vanda.

Að mínu áliti þurfum að auka hér samkennd og minnka einstaklingshyggju. Samkennd er hægt að þjálfa frá fyrsta andardrætti lítils barns, meðal annars með því að hægja á kapphlaupinu í samfélaginu, fjölga samverustundum fjölskyldunnar, taka betur utan um þá hópa sem eiga á hættu að einangrast og sýna þeim mildi en ekki fordæmingu og útskúfun sem fara út af beinu brautinni. Við þurfum að græða hið blæðandi sár samfélagsins og það gerum við með þjóðarátaki sem stjórnvöld þurfa að leiða með mildi og kærleika að leiðarljósi en ekki með því að auka á aðskilnaðarstefnu með orðum sínum og gjörðum. Viðbragð okkar þarf að snúa að rót samfélagsvandans ekki plástrun á blæðandi sár. Við getum þetta saman, við skulum gera þetta saman með kröftugri sókn að umvefjandi samfélagi.

Æviágrip á vef Alþingis

Smelltu hér til að skoða æviágrip á vef Alþingis
Opna

Fylgstu með

Skráðu þig á póstlistann hjá mér og fylgstu með þeim málefnum sem ég er að vinna að hverju sinni.
Skrá mig
linkedin facebook pinterest youtube rss twitter instagram facebook-blank rss-blank linkedin-blank pinterest youtube twitter instagram