Fjárfestum í fólki

Eftir nærri sex ára valdatíð ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur, sem mynduð var til að byggja upp innviði, stöndum við uppi með samfélag þar sem öll grunnþjónusta er ótrygg, grundvallarkerfi eru höktandi og skjól í formi húsnæðis- og framfærsluöryggis er ekki í boði fyrir alla.

Á sama tíma fylgjumst við með setningu nýrra stofnana, setra og stýrihópa sem eiga að finna leiðir til að breyta til. Hönnuð eru ný merki, stefnur samþykktar og stjórar skipaðir. Ekki er hér ætlunin að vefengja nauðsyn þess að stokka upp í stofnunum og yfirstjórnum en nú, þegar vandinn í samfélaginu er allt um lykjandi, þarf sjónarhorn ráðherra í ríkisstjórn Íslands að fara frá yfirbyggingu til fólksins í landinu. Já þetta snýst nefnilega um sjónarhorn.

Við vinnu þingmannanefndar um málefni barna á síðasta kjörtímabili, lögðum við Halldóra Mogensen, þingmaður Pírata í nefndinni, fram beiðni um að kallað yrði eftir mati á því hvað það kostar íslenskt samfélag og þar á meðal ríkissjóð að gera hlutina illa eða alls ekki. Óskuðum við eftir kostnaðargreiningu á því hvað það kostaði að vanfjármagna þjónustu við börn. Fengum við ítarleg gögn í hendur sem sýndu svart á hvítu að það væri raunveruleg fjárfesting að ráðast í þá hluti sem við vorum að leggja til, fjárfesting sem myndi skila sér í beinhörðum fjármunum síðar meir. Það er hægt að mæla hagsæld.

Þannig verðum við að hugsa í öllum þeim málum sem við fáumst við. Ég kalla því eftir samstöðu um uppbyggingu innviða í landinu. Við getum byrjað á að spyrja okkur hvað það kostar okkur í beinhörðum útgjöldum ríkissjóðs að geyma fólk á biðlistum eftir nauðsynlegri heilbrigðis- og velferðarþjónustu. Hvað lífsskerðingin sem felst í biðinni kostar ríkissjóð og hvað það kostar að hafa fjölskyldumeðlimi að annast fólk sem þarf á umönnun að halda, hvort sem um er að ræða börn, miðaldra eða eldra fólk. Hvað kostar það að gera geðheilbrigðismál að afgangsstærð í heilbrigðiskerfinu? Hvað kostar það ríkissjóð að grípa ekki einstaklinga á fyrstu stigum fíknar í stað þess að láta þau bíða þar til skaðinn er meiri og bataleiðin brattari? Hvað kostar það samfélagið að missa unga menn út úr skólakerfinu og hvað kostar það að tryggja ekki fullnægjandi framboð af húsnæði?  

Fyrir liggur að við skerum okkur frá Norðurlöndunum þegar kemur að framlagi til heilbrigðis- og velferðarmála auk þess sem umönnunarbyrði fjölskyldna á Íslandi er þyngri en þekkist víða annars staðar í Evrópu. Það ólaunaða starf leggst þyngst á konur sem annast börn, sjúka, fatlaða og aldraða ættingja sína. Þá hefur húsnæðisóöryggi bein áhrif á heilsu fólks og litar framtíð barna sem við slíkt búa. Hvað kostar það þegar stjórnvöld vanrækja það að fjárfesta ekki í fólkinu í landinu?

Æviágrip á vef Alþingis

Smelltu hér til að skoða æviágrip á vef Alþingis
Opna

Fylgstu með

Skráðu þig á póstlistann hjá mér og fylgstu með þeim málefnum sem ég er að vinna að hverju sinni.
Skrá mig
linkedin facebook pinterest youtube rss twitter instagram facebook-blank rss-blank linkedin-blank pinterest youtube twitter instagram