Fjölbreytt atvinnulíf er lykillinn

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 23. október 2020

Veirufaraldurinn hefur heldur betur sett strik í reikninginn. Fyrirtækin eru á mjög mismunandi stað í sínum rekstri í þessari þriðju bylgju; sum finna lítið fyrir áhrifum veirunnar en önnur hafa orðið fyrir verulegu höggi. Það verður ekki hægt að bjarga þeim öllum, sér í lagi ekki þeim sem voru illa stödd fyrir faraldur, en stjórnvöldum ber skylda til að stíga kröftuglega inn og þá með sértækum aðgerðum.

Enn ber um of á stórum og mjög fjárfrekum aðgerðum fyrir fá stórfyrirtæki en kjarkleysi stjórnvalda birtist þegar kemur að litlum fyrirtækjum um allt land. Lítil fyrirtæki eru iðulega rekin rétt eins og heimilisbókhaldið, án digurra sjóða heldur frekar með meginþorra rekstrarkostnaðar í launakostnaði fárra starfsmanna. Þessi stærð á fyrirtækjum er algengust hér á landi og þau eru nauðsynleg til að halda samfélaginu gangandi. Fámenn, fjölbreytt fyrirtæki um land allt sem halda úti mikilvægri þjónustu og tryggja jafnframt heimilum og fjölskyldum um allt land framfærslu frá degi til dags.

Ákveðnir hópar eru frekar að verða fyrir atvinnuleysi en ungt fólk og konur eru þar sérstaklega áberandi. Það þarf að gera meira en að fjölga á atvinnuleysisskrá heldur frekar að fara í sértækar aðgerðir til stuðnings fyrirtækjum við að fjölga störfum og koma í veg fyrir gjaldþrot. Hlutastarfaleiðin var mikilvæg aðgerð en því miður þá tóku stjórnvöld ákvörðun í byrjun sumars um að veikja þá björg verulega.

Lokunarstyrkir gilda eingöngu fyrir þau fyrirtæki sem verða að loka vegna sóttvarnatilskipana en ekki fyrir þau fjölmörgu sem hafa engin viðskipti vegna sóttvarnareglna. Veitingahúsin hringinn í kringum landið hafa til dæmis verið skilin eftir og þótt það sé ekki skemmtilegt að vera boðberi válegra tíðinda þá verða stjórnvöld að bregðast strax við til að stöðva þá hrinu gjaldþrota í þeim geira og ferðamannageiranum öllum sem þegar er hafin. Ekkert okkar vill vakna upp að vori með tóm hús um allt land og ekkert líf. Þarna er hvort tveggja stór hópur starfsfólks en líka menningarleg verðmæti.

Sértækur stuðningur fyrir lítil fyrirtæki er þannig lykilatriði. Í Ábyrgu leiðinni sem við í Samfylkingunni kynntum á dögunum leggjum við til gjaldfrjálst tryggingagjaldsár 2021 fyrir einmitt þessi fyrirtæki. Þessu svipar til persónuafsláttar þar sem fyrstu tvær milljónir tryggingagjalds á árinu verða gjaldfrjálsar. Þetta mun án nokkurs vafa koma fjölmörgum fyrirtækjum yfir erfiðasta hjallann, er sértækt og gagnast einmitt þeim minnstu.

Svo er það blessuð krónan sem verður að ræða. Krónan er örgjaldmiðill sem sveiflast eins og lauf en þetta ástand er því miður gömul saga og ný. Almenningur tapar á hærra vöruverði af innfluttum vörum en stjórnvöld þora ekki í umræðuna.

Æviágrip á vef Alþingis

Smelltu hér til að skoða æviágrip á vef Alþingis
Opna

Fylgstu með

Skráðu þig á póstlistann hjá mér og fylgstu með þeim málefnum sem ég er að vinna að hverju sinni.
Skrá mig
linkedin facebook pinterest youtube rss twitter instagram facebook-blank rss-blank linkedin-blank pinterest youtube twitter instagram