Fjölbreytt og farsælt

Þessa viku höfum við fagnað fjölbreytileikanum en um leið minnt okkur á mikilvægi þess að slaka aldrei á í baráttunni fyrir grundvallarmannréttindum alls fólks. Slík réttindi eru og verða líklega aldrei sjálfgefin á meðan mannfólkið telur sig á einhvern hátt hafa rétt til skerðingar réttinda annars fólks.  

Eins ótrúlega og það hljómar þá hafa réttindi hinsegin fólks og transfólks verið dregin í efa af sífellt háværari en smáum hópi fólks á undanförnum árum, fólks sem jafnvel hefur sterka rödd í samfélagsumræðunni, t.d. stjórnmálafólks hér á landi sem og erlendis. Orðræðan hefst nú yfirleitt með að lýsa yfir fordómaleysi, en að viðkomandi telji engu að síður að tilvist ákveðinna einstaklinga megi draga í efa!

Það er hreint út sagt með ólíkindum að fólk sem vill láta taka sig alvarlega í daglegu starfi leyfi sér að fara fram með málstað sem þennan. Hvaða tilgangi þjónar það, öðrum en að meiða þann hóp fólks sem fyrir þessu verða? Það er staðreynd að að undanförnu hefur transfólk sérstaklega orðið fyrir mismunun, hatursorðræðu og ofbeldi af hálfu samborgara sinna um allan heim. Fjölmiðlar sumir hverjir ganga út á að breiða út hatursorðræðuna, þar sem efast er um tilvist þessa tiltekna hóps á sama tíma og rætt er um hvað þessi sami hópur, sem þó ekki er til, sé skaðlegur samfélaginu.

Ég ætla að leyfa mér að fullyrða að slík orðræða veldur umtalsvert meira tjóni á samfélögum um allan heim en tilvist transfólks, sem krefst ekki annars en að fá að vera í friði, rétt eins og annað fólk, fá að vera viðurkennd, og þurfa ekki að sæta ofsóknum.

Það er óhætt að kalla það ofbeldishegðun að vera sífellt að gera grín að tilvist fólks. Efast um nöfn þess, persónufornöfn já og tilvist almennt. Það að leika sér að því að beita annað fólk ofbeldi á opinberum vettvangi á degi hverjum sýnir okkur stórundarlegt innræti þess sama fólks sem telur sig auðveldlega ráða við að læra fjölda nýrra orða í tengslum við störf sín eða menntun en ekki þau orð sem tengjast trans fólki. Það er kominn tími til að spyrna við fótum því þessari meiðandi já og ofbeldisfullu hegðun verður að linna. Við saman verðum að bregðast við þegar við verðum vör við þessa hatursfullu tjáningu. Við megum ekki standa þögul hjá rétt eins og gert var framan af í réttindabaráttu hinsegin fólks. Þetta líður ekki hjá af sjálfu sér ef við bregðumst ekki við og stöndum saman gegn útskúfun og fordómum.

Samfélagið okkar verður alltaf ríkara af fjölbreytileikanum. Þannig mun okkur vegna betur og líða betur. Ég er sannfærð um það og við bara verðum að standa saman um að láta ekki hræða okkur inn í aðskilnaðinn, myrkrið og þögnina.

Stöndum saman, fyrir litríku og fjölbreyttu samfélagi. Til hamingju með gleðidagana.

Æviágrip á vef Alþingis

Smelltu hér til að skoða æviágrip á vef Alþingis
Opna

Fylgstu með

Skráðu þig á póstlistann hjá mér og fylgstu með þeim málefnum sem ég er að vinna að hverju sinni.
Skrá mig
linkedin facebook pinterest youtube rss twitter instagram facebook-blank rss-blank linkedin-blank pinterest youtube twitter instagram