Greinin birtist fyrst þann 29. ágúst 2020
Stjórnvöld standa frammi fyrir miklum vanda. Fyrir utan heilsufarsvá sem fylgir kórónaveirunni þarf að bregðast hratt við sívaxandi atvinnuleysi. Það er ekki síður heilsufarsvá, því brottfall af vinnumarkaði með tilheyrandi tekjufalli, fátækt og á stundum einangrun getur haft mikil áhrif á heilsu fólks. Stjórnvöld hafa brugðist hratt við ýmsum efnahagslegum áskorunum til að halda fyrirtækjum gangandi en minna hefur borið á úrræðum til að fjölga störfum.
Sú kreppa sem við stöndum nú frammi fyrir er ólík þeirri sem leiddi af bankahruninu 2008. Þá urðu nánast allar fjölskyldur fyrir höggi vegna hækkunar á afborgunum lána auk atvinnuleysis en nú snertir kreppan landsmenn á ólíkan hátt. Verðbólgan er sem betur fer ekki farin af stað svo enn sem komið er hafa afborganir af lánum landsmanna og verðlag ekki hækkað svo heitið geti. En til þess að halda þessu í skefjum verða stjórnvöld að gera allt til að fjölga störfum. Áður höfum við í Samfylkingunni talað um ábyrgð stjórnvalda þar. Það er vel hægt að fjölga í geirum hjá hinu opinbera sem hafa verið undirmannaðir um margra ára skeið. Skortur á hjúkrunarfræðingum hefur beinlínis komið í veg fyrir eðlilegt flæði aðgerða á heilbrigðisstofnunum sem leitt hefur til ofálags á þá hjúkrunarfræðinga enn eru að störfum. Sama er uppi á teningnum í lögregluliði landsins. Lögreglumenn eru færri í dag en fyrir tíu árum, þrátt fyrir fjölgun íbúa og áður umtalsverðan fjölda ferðamanna. Hver og einn lögreglumaður þarf að sinna mun fleiri verkefnum og taka á sig fleiri og fleiri yfirvinnutíma, rétt eins og hjúkrunarfræðingar. Þetta ástand getur svo leitt til mistaka í starfi og eins og áður segir, kulnunar vegna áralangs ofálags. Núna er tækifærið til að leysa þetta og kalla þá hjúkrunarfræðinga og lögreglumenn, sem flúðu bág starfskjör og starfsaðstæður inn í ferðaþjónustuna, aftur til starfa.
Annað úrræði vil ég nefna. Á árunum eftir bankahrun var farið í fjölbreyttar aðgerðir til að fækka atvinnulausum og má þar nefna átakið „vinnandi veg“ sem tókst prýðilega. Þar var fyrirtækjum veittur fjárhagsstuðningur til að ráða fólk af atvinnuleysisskrá. Stjórnvöld greiddu hluta launa starfsmanna sem ráðnir voru af atvinnuleysisskrá í allt að 12 mánuði. Fólk fór af atvinnuleysisbótum og í starf sem mögulega varð til framtíðar. Fyrirtækin fundu framleiðnina aukast og starfsfólkið sem áður hafði beðið eftir störfum komst í virkni. Framlag stjórnvalda vegna atvinnuleysisbóta lækkaði og allir græddu. Þetta verkefni á að ráðast í núna strax og vil ég hvetja stjórnvöld til þess án tafar. Því lengur sem atvinnuleysi varir því meiri líkur eru á félagslegum og heilsufarslegum vanda fjölskyldna. Boltinn er hjá stjórnvöldum.