Fólkið hefur valdið

Greinin birtist fyrst þann 25. september 2020

Ég horfði á áhrifamikið tónlistarmyndband á dögunum með lista- og baráttukonunni Patti Smith. Hún hafði fengið til liðs við sig fjölþjóðlegt teymi fólks á öllum aldri, meðal annars tónlistarkonuna Ólöfu Arnalds.

Patti hvetur almenning til dáða. Hvetur fólk m.a. til að nota vald sitt í forsetakosningunum sem framundan eru í Bandaríkjunum. Hvetur fólk til að nýta vald sitt til að snúa við þróun sem henni og fleirum hugnast ekki. Að samstaða fólksins geti breytt.

Þetta var fallegt og hvetjandi myndband. Við getum þetta saman, hvort sem um er að ræða fjölskylduna, vinahópinn, götuna, hverfið, íþróttafélagið, stjórnmálaflokkinn, þjóðina eða heimsbyggðina. Hvert það mengi sem við tilheyrum getum við nýtt til góðra verka en til þess að við finnum að okkar vald og okkar framlag skipti máli þurfum við að finna það í verki að allir standi jafnfætis í hópnum. Að allir í hópnum fái sömu tækifæri og að hlustað sé af alvöru. Þannig fáum við alla í hópnum til að hlaupa í sama takti að sama markmiði.

Markmið okkar sem störfum í stjórnmálum er að tryggja jafnræði og bæta lífsskilyrði flestra. Ef íbúar upplifa mikla misskiptingu gæða, eins og til dæmis birtist okkur í nýjum tölum Hagstofunnar yfir skiptingu eigna á Íslandi, þá er hætta á að samstaðan bresti. Á tímum eins og þessum, í heimsfaraldrinum miðjum, þurfum við sérstaklega að gæta að jöfnuði um heim allan. Faraldurinn kemur harðast niður á þeim sem lítið skjól hafa. Þeim sem hafa veikt félagslegt og efnahagslegt bakland. Þann hóp þurfa stjórnvöld á hverjum stað sérstaklega að hugsa um.

Okkar ríka samfélag er tilvalið til að jafna kjörin, minnka neyðina og koma með öllum tiltækum ráðum í veg fyrir fátækt barna og fullorðinna. Það er ótækt í jafn ríku samfélagi að hér búi þúsundir barna við sára fátækt. Saman ættum við öll að krefjast úrbóta því fátækt bitnar ekki bara á einstaklingnum heldur harkalega á samfélaginu öllu. Þessi staða er ekki eitthvert náttúrulögmál og rangt að ef hlutfall fátækra í samfélagi minnki þá skerðist ríkidæmi annarra. Fræðin sýna þvert á móti að þar sem jöfnuður er meiri, þar er meiri hagvöxtur og samfélagið allt græðir. Fátækt er pólitísk ákvörðun sem ber að uppræta.

Já, fólkið hefur valdið og saman eigum við að nýta vald okkar á hvaða vettvangi sem okkur hugnast. Við gerum fátt með heimasetu í kosningum eða sófatuði yfir sjónvarpsfréttum heldur með því að segja upphátt hvernig okkur líður og hvað má betur fara. Hvernig við saman hámörkum gæðin í samfélaginu og hvernig við getum stutt við þá sem á stuðningi þurfa að halda. Við náðum saman að mynda almannavarnir gegn veiru í upphafi faraldurs og eigum líka að geta staðið saman að bættum kjörum fyrir alla landsmenn til framtíðar.

Æviágrip á vef Alþingis

Smelltu hér til að skoða æviágrip á vef Alþingis
Opna

Fylgstu með

Skráðu þig á póstlistann hjá mér og fylgstu með þeim málefnum sem ég er að vinna að hverju sinni.
Skrá mig
linkedin facebook pinterest youtube rss twitter instagram facebook-blank rss-blank linkedin-blank pinterest youtube twitter instagram