Fortakslaus réttur þess sem beitir ofbeldi

Birtist fyrst í Morgunblaðinu 19. desember 2020

Á Alþingi er verið að gera mikilvægar breytingar á lögum um fæðingarorlof. Miklar breytingar eru lagðar til sem rýmka eiga rétt foreldra til töku 12 mánaða fæðingarorlofs og rétt barna til samvista við báða foreldra sína.  Lagðar eru til ýmsar réttarbætur fyrir börn sem njóta aðeins umönnunar annars foreldris svo sem þegar hitt foreldrið afplánar refsingu, þegar það á ekki rétt til fæðingarorlofs hér á landi, þegar foreldrið er langveikt eða glímir við mikla fötlum og loks þegar foreldri sætir nálgunarbanni gagnvart barni. Þá skal hitt foreldrið og barnið fá að njóta 12 mánaða fæðingarorlofs.

Töluvert umræða hefur verið um þá stöðu foreldri sætir nálgunarbanni gagnvart hinu foreldrinu en ekki barninu sjálfu. Þær alvarlegu aðstæður sem uppi eru þegar ákæruvald og dómsvald fallast á beitingu nálgunarbanns kalla á viðbrögð löggjafans. Lög um nálgunarbann eru ströng, enda um íþyngjandi inngrip í frelsi einstaklings að ræða.  Er skýrt að heimilt sé að beita nálgunarbanni ef  rökstuddur grunur er um að sakborningur hafi framið refsivert brot eða raskað á annan hátt friði brotaþola eða ef hætta er á að viðkomandi brjóti á þann hátt gegn brotaþola.

Af þessum sökum er mér óskiljanlegt hvers vegna stjórnarliðar treysta sér ekki til að leggja til, eða samþykkja þá breytingatillögu mína, að ef nálgunarbann er sett gagnvart foreldri skuli það foreldri sem beitir svo grófu ofbeldi í frumbernsku barns að nálgunarbanni er beitt, missa rétt til 6 mánaða fæðingarorlofs. Þannig geti barnið notið fæðingarorlofs í 12 mánuði eins og önnur börn foreldra sem ekki búa við svo alvarlega stöðu. Stjórnarflokkarnir töldu mikilvægt að ákvörðun um slíkt  yrði sett í hendur starfshóps að vinna frameftir næsta ári. Stjórnarliðar telja þannig mögulegt að það sé barni fyrir bestu að þrátt fyrir gróft ofbeldi af hálfu annars foreldris gegn hinu, mögulega ítrekuðu ofbeldi og hótanir, geti ofbeldisforeldri verið í svo góðum og nánum tengslum við barn sitt að það sé eðlilegt að fullt fæðingarorlof sé tekið. Sjálf tel ég vandséð að unnt sé að virða nálgunarbann sem foreldri sætir gagnvart hinu foreldri á sama tíma og foreldrar þurfa að eiga í nauðsynlegum samskiptum vegna skipta á umönnun barns sín á milli. Loks tel ég ekki síður mikilvægt að minna á þá hrikalegu staðreynd sem rannsóknir sýna að 20% kvenna verða fyrir líkamlegu ofbeldi á meðgöngu og einnig að ofbeldi í nánum samböndum eykst fyrstu mánuði eftir fæðingu barns.

Ég vek að lokum athygli á frumskilyrði þeirra sem hafa með málefni barna að gera, að gera aðeins það sem er barni fyrir bestu. Slíka skyldu er að finna í barnalögum og barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna svo eitthvað sé nefnt.  

En nei, ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttir setur málið í nefnd. 

Æviágrip á vef Alþingis

Smelltu hér til að skoða æviágrip á vef Alþingis
Opna

Fylgstu með

Skráðu þig á póstlistann hjá mér og fylgstu með þeim málefnum sem ég er að vinna að hverju sinni.
Skrá mig
linkedin facebook pinterest youtube rss twitter instagram facebook-blank rss-blank linkedin-blank pinterest youtube twitter instagram