Í morgunblaðinu í gær geystist háskólaráðherra fram á ritvöllinn og fjallaði um meint forystuleysi í Reykjavíkurborg vegna þess að ekki hefur tekist að útvega öllum börnum í borginni 12 ára og eldri leikskólapláss. Nú skal alls ekki gera lítið úr vanda fjölskyldna sem bíða eftir plássi, en eins og fram hefur komið í fjölmiðlum þá má skrifa töf á úthlutun plássa á töf á afhendingu þriggja nýrra leikskóla frá verktökum. Um er að kenna ástandi í heiminum, fyrst heimsfaraldri sem hægði á byggingu húsnæðis og síðar stríðsástandi sem hægði á afhendingu stálgrinda í húsin. Þetta er auðvitað alls ekki gott en því miður óumflýjanlegt ástand. Sem betur fer munu þó leikskólarnir þrír opna dyr sínar fyrir reykvískum börnum nú í október og nóvember, þökk sé forystu jafnaðarmanna í borginni.
Við lestur greinar ráðherrans fór ég að hugsa um hvernig staðið er að málum hjá ríkisstjórn hennar. Biðlistar eftir nauðsynlegri heilbrigðisþjónustu hafa aldrei verið jafn langir. Embætti landlæknis hefur sett fram viðmiðunarmörk um aðgengi að heilbrigðisþjónustu og hvað megi telja vera ásættanlega bið. Viðmið embættisins er að 80% sjúklinga komist í aðgerð innan 90 daga eftir að óskað er aðgerðar ella sé staðan óásættanleg. Hafa verður í huga að biðlistar eftir viðtölum hjá læknum eru einnig mjög langir og ná biðlistar einungis yfir þá sem hafa náð að komast að hjá lækni og verið vísað í nauðsynlega aðgerð.
Af 18 aðgerðarflokkum sem embættið rannsakar tókst að koma sjúklingum í aðgerð á innan við 90 dögum í fjórum flokkum. Í 14 flokkum var um að ræða umtalsvert lengri bið og eru dæmi þess að allt að 90% sjúklinga hafi þurft að bíða í lengri tíma en þá þrjá mánuði sem miðað er við. Má sjá dæmi um allt að ársbið eftir nauðsynlegum aðgerðum. Aðgerðum sem í dag kallast valkvæðar en eru það alls ekki. Fólk hefur ekki val um að komast annað hvort ekki fram úr rúminu eða fara í hnjá- eða mjaðmaaðgerð, að láta ekki framkvæma legnám og geta þá ekki sinnt sínum daglegu störfum eða fara í aðgerð eða fara í augnsteinaaðgerð til að auka sjón sína og möguleika til áframhaldandi góðs lífs svo dæmi séu tekin. Þetta eru aðgerðir sem eru nauðsynlegar svo fólk geti búið við góð lífskjör. Það að láta langa biðlista verða að meginreglu frekar en undantekningu hefur veruleg áhrif á lífsgæði alls almennings í landinu og á því ástandi ber ríkisstjórnin ábyrgð.
Það skortir forystu í heilbrigðismálum í landinu. Nú fáum við brátt að líta augum nýtt fjárlagafrumvarp og verður fróðlegt að sjá smáskammtalækningar ráðherra til handa heilbrigðiskerfinu. Við verðum að tryggja heilbrigðisþjónustu um allt land til að hér ríki hagsæld til framtíðar. Um þetta ættu allir ráðherrar í ríkisstjórn að hafa hugann við.