Framtíðin er björt, ef við þorum

Framtíðina þarf að skapa núna. Þetta covid ár hefur heldur betur reynt á okkur öll, með misjöfnum hætti þó. Verkefnin hafa breyst, vinnustaðir lokað og störfum fækkað. En framundan er uppbygging og það er vor í lofti. Við þurfum að hafa kjark til að styðja á réttum stöðum við uppbyggingarferlið og við það fólk og fyrirtæki sem nauðsynlega þurfa á því að halda. Þannig þarf pólitískan kjark og útsjónarsemi til að fara í sértækar aðgerðir sem skila sér margfalt til framtíðar.

Samfylkingin kynnti í vikunni aðgerðarpakka í sex liðum sem ætti að koma til framkvæmda núna í sumarbyrjun. Þessar aðgerðir snúa flestar að því að koma atvinnuleitendum aftur til starfa, búa til hvata hjá fyrirtækjum að ráða til sín fólk, en einnig að grípa þá sem hafa um lengri tíma verið án atvinnu. Einnig leggjum við til skemmtilegri sumarmánuði fyrir okkur öll í samstarfi við listafólk víða um land sem hefur misst grundvöll tekna sinna síðustu mánuði vegna samkomutakmarkana. Tónlistarfólk og sviðslistafólk hefur misst sínar tekjur í rúmlega heilt ár og við því þarf að bregðast með öllum tiltækum ráðum. Okkar tillaga er að farið verði í styrkveitingar án tafar til viðburðahalds um allt land, þannig að allur almenningur fái notið tónleika og leiksýninga á bæjarhátíðum og um alla borg. Einfalt og skjótvirkt umsóknarkerfi fyrir skemmtilegra sumar.

Önnur tillaga sem ég vil vekja sérstaka athygli á varðar þá sem hafa verið í atvinnuleit undanfarna mánuði. Við leggjum til að veittur verði tímabundinn skattaafsláttur fyrir þá sem koma aftur til starfa eftir atvinnuleysi. Leiðin er einföld í framkvæmd því hún felur í sér tvöföldun persónuafsláttar í jafn marga mánuði og viðkomandi var án atvinnu. Þetta er ekki ósvipað og þekkist í fyrirtækjarekstri þar sem þau geta nýtt sér tap undanfarins árs á móti hagnaði þessa árs. Þannig getur sá sem missti vinnuna nýtt sér tekjufallið af liðnu ári sem  viðbótarpersónuafslátt í jafn marga mánuði og tekjufallið varði.

Tekjufall í kjölfar uppsagnar getur leitt til langvarandi alvarlegs fjárhagsvanda. Slíkur fjárhagsvandi sem velt er á undan fjölskyldum árum saman leiðir til aukins kostnaðar um allt kerfið. Það að fjárfesta með þessum hætti í fólki og fjölskyldum mun borga sig upp fyrr en ella og aðferðin er einföld í framkvæmd. Slík tímabundin hækkun á ráðstöfunartekjum fyrir þá sem urðu fyrir tekjufalli gagnast strax og þannig getur fólk í þessari stöðu greitt hraðar niður þær skuldir sem safnast hafa upp í því ástandi sem verið hefur.

Að leggja fyrirtækjum og einstaklingum tímabundið lið nú þegar við erum að koma okkur upp úr áfallinu er skynsamleg og góð fjárfesting til framtíðar. Við skulum sýna hugrekki og framkvæma hratt og vel.

Æviágrip á vef Alþingis

Smelltu hér til að skoða æviágrip á vef Alþingis
Opna

Fylgstu með

Skráðu þig á póstlistann hjá mér og fylgstu með þeim málefnum sem ég er að vinna að hverju sinni.
Skrá mig
linkedin facebook pinterest youtube rss twitter instagram facebook-blank rss-blank linkedin-blank pinterest youtube twitter instagram