Framvarðarsveit leitar annað

Fjöldi þeirra hjúkrunarfræðinga sem íhugar að snúa til annarra starfa hefur aldrei verið meiri en nú, í maímánuði 2023. Þetta kom fram á nýafstöðnum aðalfundi félags hjúkrunarfræðinga þar sem samþykkt var einróma áskorun til stjórnvalda um að bæta stöðu og starfsaðstæður hjúkrunarfræðinga. 67% hjúkrunarfræðinga, sem hafa lagt á sig áralangt háskólanám með tilheyrandi kostnaði, hafa hugleitt að undanförnu að hverfa til annarra starfa. Þetta er töluverð aukning frá því sem áður var, jafnvel í heimsfaraldri. Langflestir nefndu starfstengt álag sem ástæðu mögulegs brotthvarfs, ónógt öryggi og launakjör. 


Hjúkrunarfræðingar eru ómissandi hlekkur í heilbrigðiskerfinu, sannkölluð framvarðarsveit eins og hún var kölluð í heimsfaraldri og þegar brestir myndast í heilbrigðiskerfinu þá eru hjúkrunarfræðingar oftar en ekki þeir sem þurfa að mæta aukinni ábyrgð og álagi. Stöðug fækkun í stéttinni auk styttingar vinnuvikunnar hefur hins vegar aukið álagið verulega og við því þarf að bregðast ekki seinna en strax. Stjórnvöld verða, með öðrum orðum, að mæta því ástandi sem er að skapast strax því ástandinu verður ekki snúið við á einum degi. Þetta er langtímaverkefni sem inniber menntun og bættar starfsaðstæður til að halda menntuðum hjúkrunarfræðingum inni í heilbrigðiskerfinu.


Það þarf að viðurkenna háskólamenntun hjúkrunarfræðinga til launa, en slíkt er auðvitað raunin með margar aðrar stéttir sem hafa að meirihluta til verið skipaðar konum. Það þarf líka að tryggja lágmarksmönnun hjúkrunarfræðinga að störfum á hverjum stað og setja skyldur um slíka lágmarksmönnun. Því fylgir viðbótarálag á stéttina að mæta því undir lok hvers mánaðar á stóru sjúkrahúsi eins og Landspítalanum, svo dæmi sé tekið, að það eigi eftir að manna tugi vakta. Þannig myndast aukið álag á hvern starfsmann, sem finnur til ábyrgðar sinnar gagnvart því að láta starfsemina ganga upp og að sjúklingar fái sína nauðsynlegu umönnun. Verkefnin bíða ekkert þar til næsti lausi hjúkrunarfræðingur mætir á vaktina, heldur þarf að leysa þau frá mínútu til mínútu. Ómönnuðu vöktunum verður að sinna og sama fólkið hleypur þá hraðar, lengur og oftar.


Ef þetta ástand væri undantekning væri það ef til vill ásættanleg staða en þegar heilbrigðiskerfið er bókstaflega rekið áfram á þessum aukavöktum starfsfólks frá mánuði til mánaðar, frá ári til árs, er alveg ljóst að það verður að bregðast við strax. Slík undirmönnun kallar á mistök í starfi og slys á starfsfólki sem á stundum eru óafturkræf. Það leikur sér enginn að slíku heldur eru það stjórnvöld sem skapa það ástand.


Öryggi sjúklinga og starfsfólks er í hættu ef stjórnvöld bregðast ekki við ákalli hjúkrunarfræðinga. Við megum ekki við meiri flótta úr stéttinni.

Æviágrip á vef Alþingis

Smelltu hér til að skoða æviágrip á vef Alþingis
Opna

Fylgstu með

Skráðu þig á póstlistann hjá mér og fylgstu með þeim málefnum sem ég er að vinna að hverju sinni.
Skrá mig
linkedin facebook pinterest youtube rss twitter instagram facebook-blank rss-blank linkedin-blank pinterest youtube twitter instagram