Fullkomin sátt um ekkert

Tilraun forsætisráðherra til breytinga á stjórnarskránni sigldi í strand, að því er virðist vegna áhugaleysis þeirra sem stóðu að málinu. Rökin fyrir strandinu eru sögð vera að ekki ríki fullkomin sátt um breytingar á stjórnarskrá en hefði áhugi verið fyrir hendi hjá forsætisráðherra hefði verið hægðarleikur að klára málið. Heimsfaraldri verður ekki kennt um þessi vinnubrögð.   

Frá lýðveldisstofnun hefur staðið fyrir dyrum að semja okkur stjórnarskrá sem þá yrði samfélagssáttmáli lítillar eyþjóðar en ekki nánast óbreytt afrit af stjórnarskrá danska konungsríkisins. Fjöldi nefnda sem hafa verið að störfum eru nánast óteljandi og afrakstur ekki mikill ef frá er talin sjálfsögð viðbót við stjórnarskrána þegar mannréttindakafla stjórnarskrárinnar var bætt við á síðasta áratug síðustu aldar. Það sem veldur ósættinu eru miklir hagsmunir valds og fjármagns. Valds sem er samtvinnað ákveðnum stjórnmálaöflum hér á landi sem ríkt hafa nánast óslitið frá lýðveldisstofnun.  

Afleikur forsætisráðherra í upphafi var að virða að vettugi þá faglegu, lýðræðislegu og málefnalegu vinnu sem farið var í á kjörtímabilinu 2009 – 2013 að frumkvæði Jóhönnu Sigurðardóttur, þá forsætisráðherra. Jóhanna hafði áratugum saman talað fyrir nauðsynlegum breytingum á stjórnarskrá, að jafna þyrfti atkvæðisrétt allra landsmanna og að auðlindir skyldu vera í eigu þjóðar og nýtingu úthlutað tímabundið, gegn gjaldi til eigenda þeirra.  

Hið lýðræðislega ferli sem þá var farið í fólst ekki í að handvelja fólk til setu í stjórnarskrárnefnd eða til ritunar ákveðinna ákvæða heldur var ferlið allt mun faglegra og í samvinnu þjóðar; þjóðfundur og svo stjórnlagaráð 25 einstaklinga sem skipað var af Alþingi, drög að nýrri stjórnarskrá samin sem að meginþorra til er byggð á núgildandi stjórnarskrá en aðrir kaflar ýmist skapaðir eða þeim breytt. Í hinni nýju stjórnarskrá sem skilað var til þings var til dæmis að finna ákvæði um arð af sameiginlegum auðlindum sem renna skyldi til þjóðarinnar, ákvæði um náttúruvernd og gagnsæja stjórnsýslu, ákvæði um jafnt vægi atkvæða og persónukjör, vernd fjölmiðla og uppljóstrara og framsalsákvæði svo dæmi sé tekið. Hið síðastnefnda hefur verið rætt óteljandi sinnum meðal lögfræðinga á opinberum vettvangi sem og fyrir fastanefndum Alþingis enda sambærilegt ákvæði talið nauðsynlegt og sett rakleitt inn í stjórnarskrá Noregs við aðild að evrópska efnahagssvæðinu en ekki okkar.  

Sú fullkomna sátt sem valdið telur nauðsynlegt að sé á breytingum á stjórnarskrá er ekki möguleg því um það ríkir engin sátt. Það er ekki sátt um þeirra tillögu, að gera engar breytingar. Sérhagsmunir eiga ekki að ráða för þegar kemur að breytingum á stjórnarskrá heldur hagsmunir almennings.  

Æviágrip á vef Alþingis

Smelltu hér til að skoða æviágrip á vef Alþingis
Opna

Fylgstu með

Skráðu þig á póstlistann hjá mér og fylgstu með þeim málefnum sem ég er að vinna að hverju sinni.
Skrá mig
linkedin facebook pinterest youtube rss twitter instagram facebook-blank rss-blank linkedin-blank pinterest youtube twitter instagram