Þessi grein birtist fyrst í Morgunblaðinu 2. janúar 2021
Annar dagur nýs árs. Það er eitthvað við upphaf árs sem er svo kærkomið. Von um betri tíð, ný markmið, nýjar áherslur. Þessi áramót höfum við að auki annars konar frelsi, sem felst í þeim heimsfaraldri sem við vonandi sjáum brátt fyrir endann á. Þá gefst okkur tækifæri til að endurstilla kerfin okkar og gera gott samfélag betra.
Við búum í góðu velferðarsamfélagi sem er ríkt að auðlindum náttúru og mannfólks. Við erum menntað og vel upplýst samfélag sem stendur ótrúlega þétt þegar á reynir. Fyrir það getum við þakkað. En hér þrífst líka spilling og því miður virðist ekki ríkur vilji hjá stjórnvöldum til að vinna gegn henni. Spilling vegur að grundvallarréttindum fólks, mannréttindum, réttarríki, lýðræði og lífsskilyrðum. Spilling birtist okkur milli ríkja heims en einnig milli fólks og fyrirtækja í stórum sem smáum samfélögum. Hún er þó ávallt á þann veg að valdi er beitt í þágu fárra gegn fjöldanum, í þágu sérhagsmuna gegn almannahagsmunum og bitnar allra harðast á þeim sem minnst eiga og fæstu ráða.
Þeir sem fara með opinbert vald verða að sýna að þeir séu traustsins verðir. Eins verða þeir sem veita valdið, sjálfur almenningur, að vera meðvitaðir um það hlutverk sitt og senda skýr skilaboð þegar misbeiting valds á sér stað. Spillingin nærist á óskýrum mörkum og því verður ramminn utan um valdhafa að vera skýr og valdmörkin sömuleiðis. Þeir sem valdið hafa verða að fá skýr skilaboð um að ekki sé annað í boði en að fara eftir leikreglum samfélagsins í hvívetna, hvort sem um er að ræða grundvallarreglur sem bundnar eru í lög eða óskráðar reglur samfélagsins um sanngirni, réttlæti og jafnvægi. Þar er það almenningur sem veitir aðhald en einnig eftirlitsstofnanir sem því miður standa margar of veikt hér á landi. Eins skipta fjölmiðlar höfuðmáli þegar kemur að aðhaldi með valdhöfum. Víða um heim eru fjölmiðlar studdir mynduglega með opinberum fjármunum, einmitt til að geta verið óháðir og veitt valdhöfum aðhald og þar þurfum við að gera betur.
Við sem störfum í stjórnmálum, í stjórn sem og stjórnarandstöðu, förum með vald og verðum í okkar verkum að vera meðvituð um það. Þegar við horfum framhjá misgjörðum samstarfsfólks okkar eða annarra valdhafa tökum við þátt í að auka hér spillingu og misrétti. Spillingin þrífst þar sem náungasamfélag er mikið og meðvirkni vegna kunningsskapar ríkjandi og þess vegna þurfum við öll í því örsamfélagi sem hér er að vera enn meira á varðbergi.
Það er ekki mannvonska að setja öðrum mörk, það er hvorki ósanngjarnt né óréttlátt að krefjast þess að reglum sé fylgt, heldur í þágu heilbrigðs og réttláts samfélags.
Ég vona að árið 2021 veiti okkur nýtt upphaf að betra og heilbrigðara samfélagi. Við gerum það saman.