Herlaus þjóð býður aðstoð.

Í fyrrinótt raungerðist það sem við höfum óttast undanfarnar vikur. Alþjóðalög hafa verið brotin, öryggi Evrópu er ógnað með innrás Rússa inn í Úkraínu og almennir borgarar liggja í valnum. Með innrásinni hafa rússnesk stjórnvöld einnig brotið Búdapest-samkomulagið frá 1994 um að virða landamæri Úkraínu og beita það ríki aldrei hervaldi nema í sjálfsvörn. Rússar eru líka að brjóta gegn samkomulagi sem gert var um vopnahlé eftir átökin á Krímskaga. Allt þetta gera rússnesk stjórnvöld án nokkurra röksemda og eðlilega óttast önnur ríki að Rússar líti annað ríkjasamkomulag jafn léttvægum augum. En þessi aðgerð er alls ekki léttvæg heldur kolólögleg og við því þarf að bregðast af fullri hörku enda upplifum við nú mestu ógn við öryggi Evrópu frá seinni heimsstyrjöld. Nató- og Evrópusambandsríkin standa frammi fyrir stærstu áskorun sinni og það sem mun ráða úrslitum er samstaða þessara ríkja, samstaða fullvalda lýðræðisríkja gegn valdabrölti og árásum Rússlandshers Pútíns. Samstaðan gerir okkur sterkari, minnsta sprunga í þeirri samstöðu veikir okkur og þeim mun meiri verður hættan um allan hinn vestræna heim.

Það er afar mikilvægt að íslensk stjórnvöld hafi líkt og önnur Evrópuríki afdráttarlaust fordæmt innrás Rússa og tilkynnt að Ísland muni veita fjármuni til mannúðaraðstoðar í Úkraínu. Við í Samfylkingunni styðjum þessar fordæmingar og teljum við rétt að Ísland skipi sér eindregið í sveit með vestrænum þjóðum sem og að ráðamenn okkar tali hátt og skýrt á alþjóðavettvangi. Því rödd okkar heyrist þrátt fyrir að við séum lítið ríki og fámennt. Okkar afstaða skiptir máli.

Það er því miður ljóst að viðbrögð vestrænna ríkja þurfa að vera harðari en þegar hefur verið boðað, því það er greinilegt að áhrifin duga ekki gegn stríðsviljugum Rússum. Við erum herlaus þjóð, sem betur fer, og því kemur það í okkar hlut að leita annarra leiða til að veita Úkraínu stuðning en að taka þátt í stríðsrekstri.

Það er nauðsynlegt að smáríki eins og Ísland sýni samstöðu og beiti öllum tiltækum ráðum til þess að styðja við úkraínskan almenning sem nú óttast um líf sitt og framtíð lands síns. Líklegt má teljast að saklausir borgarar komi til með að streyma yfir landamæri Úkraínu enda eru þau ekki örugg þar í landi. Því er það einnig ánægjulegt að stjórnvöld hafi brugðist við kalli okkar í Samfylkingunni í gærmorgun um að taka Úkraínu þegar í stað af lista hinna svokölluðu öruggu ríkja. Við getum hvort tveggja veitt stuðning með samstöðu okkar sem og með því að veita úkraínskum almenningi skjól hér á landi á meðan á innrás stendur. Það er okkar skylda sem þjóð í samfélagi þjóða.

Við eigum að opna faðminn og veita hér þann stuðning sem við getum, mannúð og skjól.

 

 

 

 

 

 

Æviágrip á vef Alþingis

Smelltu hér til að skoða æviágrip á vef Alþingis
Opna

Fylgstu með

Skráðu þig á póstlistann hjá mér og fylgstu með þeim málefnum sem ég er að vinna að hverju sinni.
Skrá mig
linkedin facebook pinterest youtube rss twitter instagram facebook-blank rss-blank linkedin-blank pinterest youtube twitter instagram