Hún er 10 ára!

Já, í dag er stórafmæli, sem þó er haldið í bláum skugga. Tíu ár eru frá því að þjóðin greiddi atkvæði um hvort að tillögur stjórnlagaráðs skyldu lagðar til grundvallar frumvarpi að nýrri stjórnarskrá. Nýrri stjórnarskrá lýðveldisins Íslands sem samin yrði af íslenskri þjóð. Meirihlutinn svaraði þeirri spurningu játandi, en aðdragandi þjóðaratkvæðagreiðslunnar var samþykki Alþingis fyrir því að þjóðin fengi að greiða atkvæði í kjölfar eins lýðræðislegasta ferils sem við höfum upplifað við samningu stjórnarskrár.

Stjórnarskráin okkar er nefnilega dönsk að upplagi. Komin frá Kristjáni IX. konungi, sem mætti reyndar ekki sjálfur með plaggið hingað til Íslands enda segir sagan að hann hafi nú haft sáralítinn áhuga á okkur Íslendingum, okkar hugðarefnum eða sjálfstæðisbaráttu okkar. Kóngurinn færði okkur ekkert skrána eins og styttan fyrir framan stjórnarráðið sýnir, heldur barst hún til Íslands löngu seinna, eða 1904, og var svo send aftur utan árið 1928.

Frá lýðveldisstofnun hefur staðið fyrir dyrum að semja samfélagssáttmála lítillar en sjálfstæðrar þjóðar en ekki afrit af stjórnarskrá danska konungsríkisins. Fjölda nefnda hefur ekki tekist verkið allt þar til kraftur var settur í málið í stjórnartíð baráttukonunnar Jóhönnu Sigurðardóttur í forsætisráðuneytinu. Jóhanna hafði áratugum saman talað fyrir nauðsynlegum breytingum á stjórnarskrá, meðal annars því að jafna þyrfti atkvæðisrétt allra landsmanna og að auðlindir skyldu vera í eigu þjóðar og nýtingu úthlutað tímabundið, gegn gjaldi til eigenda þeirra.  

Jóhanna lagði til Þjóðfund sem var valinn með slembiúrtaki og síðar var kosið til stjórnlagaþings sem svo varð að þingkosnu stjórnlagaráði sem færði þinginu loks tillögur sínar. Tillögur stjórnlagaráðs voru bornar undir þjóðina sem samþykkti þann 20. október 2012 að leggja ætti tillögurnar til grundvallar að frumvarpi til nýrrar stjórnarskrár. Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis hélt vinnunni áfram, bar frumvarpið undir Feneyjarnefndina og fleiri umsagnaraðila og lokaútgáfa frumvarps leit dagsins ljós. Þjóðin hafði samið sér stjórnarskrá í ferli sem vakið hefur athygli víða um heim. Stjórnarskrá sem stendur vörð um mannréttindi, um réttindi og réttlátan arð þjóðar yfir auðlindum sínum, stjórnarskrá sem skýrir hlutverk forseta og styrkir vald almennings gagnvart ofurefli ríkisins.  

En valdinu hugnast ekki stjórnarskrá sem stendur með fólkinu. Það sem veldur ósættinu eru miklir hagsmunir valds og fjármagns sem er samtvinnað ákveðnum stjórnmálaöflum sem ríkt hafa nánast óslitið frá lýðveldisstofnun. Góðu fréttirnar eru þær að við eigum nýja stjórnarskrá, ferlið er ekki ónýtt þótt það hiksti. Við þurfum bara nýja ríkisstjórn sem klárar verkið.

Æviágrip á vef Alþingis

Smelltu hér til að skoða æviágrip á vef Alþingis
Opna

Fylgstu með

Skráðu þig á póstlistann hjá mér og fylgstu með þeim málefnum sem ég er að vinna að hverju sinni.
Skrá mig
linkedin facebook pinterest youtube rss twitter instagram facebook-blank rss-blank linkedin-blank pinterest youtube twitter instagram