Húsnæði geðsviðs Landspítala barn síns tíma

Það er mikið fagnaðarefni að fylgjast með kröftugri uppbyggingu nýs Landspítala við Hringbraut. Hönnun og útlit miðar að nútímakröfum í lækna- og heilbrigðisvísindum hvort tveggja varðandi aðbúnað sjúklinga sem og heilbrigðisstarfsfólks. Það skiptir miklu máli að þar fari saman gott aðgengi, aðbúnaður og ekki síður nærandi umhverfi fyrir þá sem þurfa að sækja þarna þjónustu, en Landspítalinn þjónustar alla landsmenn auk þess að vera héraðssjúkrahús og háskólasjúkrahús.

Það urðu mér því nokkur vonbrigði að sjá að eitt svið spítalans er skilið eftir í uppbyggingunni, þrátt fyrir úr sér genginn húsakost. Geðsvið Landspítala skal áfram staðsett í gömlu og óhentugu húsnæði við Hringbraut og Klepp. Þessi hús eru óhentug á margan hátt. Húsnæðið við Hringbraut gerir ekki ráð fyrir að þeir sem eru þar í vistun á lokuðum deildum komist út undir bert loft. Engin útisvæði eru fyrir þá sem þurfa, veikinda sinna vegna, að vera í stöðugri gæslu. Húsnæðið sjálft er svo ósköp lítið nærandi, gráir hrjúfir veggir mæta sjúklingum og fjölskyldum þeirra við komuna og aðbúnaður innan húss á köflum þannig að ekki er hægt að opna glugga eða búa til lágmarks þægindi. Kleppur er svo að hluta til 100 ára gömul bygging byggð á jafn gamalli hugmynd um aðstæður geðsjúkra. Nútímaþekking kallar á að við gerum betur.

Í Ábyrgu leiðinni, frá atvinnukreppu til grænnar uppbyggingar, sem inniheldur tillögur okkar í Samfylkingunni um uppbyggingarstarf í kjölfar veirufaraldurs eru tillögur að uppbyggingu mannúðlegra umhverfis fyrir geðheilbrigðisþjónustu Landspítala. Víða um Norðurlönd hafa verið tekin stór skref í átt að mannúðlegra og meira nærandi umhverfi sjúklinga sem glíma við geðrænar áskoranir. Þetta er sjúklingahópur sem þarf að geta notið útiveru í öruggu umhverfi, sótt hreyfingu og fundið næringu í því umhverfi sem dvalið er í til lengri eða skemmri tíma. Aðstaðan sem þessum hópi er boðið upp á er ófullnægjandi og við eigum ekki að skilja þau og starfsfólk geðsviðs eftir þegar kemur að nútímalegri uppbyggingu þjóðarsjúkrahússins.

Æviágrip á vef Alþingis

Smelltu hér til að skoða æviágrip á vef Alþingis
Opna

Fylgstu með

Skráðu þig á póstlistann hjá mér og fylgstu með þeim málefnum sem ég er að vinna að hverju sinni.
Skrá mig
linkedin facebook pinterest youtube rss twitter instagram facebook-blank rss-blank linkedin-blank pinterest youtube twitter instagram