Hvað er nóg?

Hver er verðmiðinn á störfum fólks? Um þetta hefur verið rætt síðustu daga eftir umræðu um kjaramál heilbrigðisstétta í Silfrinu um síðustu helgi. Hvað er nóg?

Hið opinbera hefur margvísleg töluleg gögn til að styðjast við þegar kemur að útreikningi á tekjum annars vegar og framfærsluþörf hins vegar. Vísar fjármálaráðherra iðulega í vefsíðuna tekjusögu, sem heimild um raunverulegar tekjur vinnandi fólks og til þeirra upplýsinga var einnig vísað í ofangreindum sjónvarpsþætti um helgina.

Heildarlaun fólks í tilteknu stéttarfélagi var tiltekið sem dæmi um hvað stéttin fengi í laun og spurt var hvað væri nóg? Var sagt að meðal heildarlaun félaga í félagi hjúkrunarfræðinga sem viðsemjenda ríkisins væru milljón krónur á mánuði. Í þessari fullyrðingu var horft framhjá því að félagar í félagi hjúkrunarfræðinga gegna margvíslegum störfum. Eru sumir forstjórar, aðrir framkvæmdastjórar og enn aðrir reka sín eigin fyrirtæki með fjölda starfsmanna og taka út arð eins og aðrir fyrirtækjaeigendur en eru samt viðsemjendur ríkis og félagar í umræddu stéttarfélagi. Þannig er sú mynd sem teiknuð var upp fjarri þeim raunveruleika sem um var rætt, þ.e. kjör almenns heilbrigðisstarfsfólks hjá hinu opinbera. Hefur komið fram í gögnum heilbrigðisráðuneytis að meðalgrunnlaun hjúkrunarfræðinga eftir 4 til 6 ára háskólanám og 20 ára starfsreynslu séu 640 þúsund krónur fyrir skatt. Hjúkrunarfræðingar bjarga sér svo upp í nauðsynlega framfæslu með fjölda yfirvinnustunda og álagsgreiðslna á næturvöktum og stórhátíðum. Þær tölur sem fulltrúi Viðskiptaráðs valdi að færa fram í Silfrinu innihalda þannig ýmiskonar stjórnendaþóknanir þar sem viðkomandi starfar ekki sem hjúkrunarfræðingur, en tölurnar innihalda einnig umtalsverða yfirvinnu hjúkrunarfræðinga vegna heimsfaraldurs þegar hver einasti heilbrigðisstarfsmaður hljóp margfalt meira en í hefðbundnu árferði.

Hvað þurfum við?

Verðbólgan er nærri 10% og er farin að bíta verulega í þegar horft er til mánðaarlegrar framfærslu. Afborganir af húsnæði hækka, hvort sem litið er til húsnæðislána, húsaleigu, fasteignagjalda, trygginga, hita og rafmagns eða annars sem viðkemur húsnæði almennings. Matarkarfan verður stöðugt dýrari sem og almennt vöruverð. Blessuð krónan heldur áfram að valda almenningi vandræðum með dansandi vöxtum sem leiðir út í allt verðlagið, eitthvað sem nágrannar okkar sem ýmist hafa Evru eða hafa tengt gjaldmiðil sinn við Evru búa ekki við. Þannig þurfum við meira í dag en í fyrra og árið þar áður.  

Umboðsmaður skuldara heldur úti góðum vef þar sem reikna má hvað við þurfum. Þar má finna svar við spurningu síðustu helgar, hvað er nóg?

Tökum dæmi af einstaklingi með tvö börn eldri en sjö ára á framfæri sem greiðir 220 þúsund krónur í húsaleigu eða af húsnæðislánum mánaðarlega, 25 þúsund í skóla eða dagvistun fyrir börn sín og svo nauðsynlegan rekstrarkostnað eins og rafmagn, hita og tryggingar sem og fasteignagjöld eða hússjóð. Samkvæmt útreikningum Umboðsmanns skuldara þarf viðkomandi einstaklingur að hafa tæplega 650 þúsund í ráðstöfunarfé á mánuði. Samkvæmt reiknivél skattsins, þarf einstaklingur sem vill hafa slíkar ráðstöfunartekjur að hafa um 940 þúsund krónur í heildarlaun fyrir skatt. Einstaklingur, barnlaus með 200 þúsund króna húsnæðiskostnað þarf tæpar 490 þúsund í ráðstöfunartekjur.

Þessi útreikningur fæst með reiknivél skattsins og umboðsmanns skuldara sem styðst við opinber viðmið á kostnaði við rekstur venjulegs heimilis. Ef tiltekinn einstaklingur fær greitt meðlag þá bætist það við ráðstöfunartekjur en ef einstaklingurinn þarf að greiða meðlag þá dregst það frá. Þá má í einhverjum tilvikum bæta við ráðstöfunartekjur vegna vaxta-, húnæðis- og barnabóta en einnig aukinn kostnað vegna fötlunar eða heilsuleysis en slíkt er ógerlegt að tiltaka ítarlega í stuttri grein.

Hvað er nóg, var spurt. Það er nóg þegar þú getur af útborguðum mánaðarlaunum þínum framfleytt þér og fjölskyldu og lagt til sparnað í hverjum mánuði fyrir óvæntum útgjöldum. Miðum við það í umræðu um launakjör og komandi kjarasamninga.

Æviágrip á vef Alþingis

Smelltu hér til að skoða æviágrip á vef Alþingis
Opna

Fylgstu með

Skráðu þig á póstlistann hjá mér og fylgstu með þeim málefnum sem ég er að vinna að hverju sinni.
Skrá mig
linkedin facebook pinterest youtube rss twitter instagram facebook-blank rss-blank linkedin-blank pinterest youtube twitter instagram