Hvað veldur þögninni?

Það er ekkert þríeyki að störfum, engir upplýsingafundir í beinni útsendingu, engir blaðamannafundir ríkisstjórnar í Hörpu vegna um fimmtíu sjálfsvíga árið 2020 en fjöldi sjálfsvíga á síðsta ári er óbirtur. Það ríkir þögn hjá stjórnvöldum utan þess sem talað er um það á tyllidögum að hrinda af stað stórátaki í geðheilbrigðismálum sem hvergi sést.

Hvað veldur þessari þrúgandi þögn?

Í vikunni hóf ég sérstaka umræðu við heilbrigðisráðherra um geðheilbrigðismál með áherslu á sérstakt átak stjórnvalda í kjölfar heimsfaraldurs. Engum dylst það grettistak sem varð á upplýsingagjöf og meðvitund heilbrigðisyfirvalda vegna þeirrar heilsuvár sem veiran olli, en því miður hefur minna farið fyrir viðbrögðum er varðar áhrif veiru á geðheilbrigði landsmanna. Alþjóða heilbrigðismálastofnunin varaði við áhrifum faraldurs á geðheilsu jarðarbúa strax í upphafi faraldurs en því miður þá virðast íslensk stjórnvöld hafa skellt skollaeyrum við þeim varnaðarorðum að öðru leyti en því að ráðherra sagði stjórnvöld hafa sett af stað vöktun á stöðunni. Þar sem augljós merki um átaksaðgerðir eru ekki fyrir hendi spurði ég ráðherra hvort hann gæti bent á aðgerðir í þessa veru en kom að tómum kofanum. Hann sagði áralanga dvöl barna á biðlistum eftir nauðsynlegri geðheilbrigðisþjónustu vera óhuggulega, en gat ekki sagt ríkisstjórnina vera að gera neitt til að bregðast við því.

Óhætt er að halda því fram að geðheilbrigðisþjónusta sé olnbogabarn íslensks heilbrigðiskerfis. Það virðist sem hvorki þyki sjálfsagt að almenningur eigi greiða leið að slíkri þjónustu né að hún sé hluti af okkar sjúkratryggingakerfi. 

Nýgengi örorku er mest í hópi þeirra sem eiga við geðrænar áskoranir. Þegar sjúkraþjálfun var sett inn í greiðsluþátttöku sjúkratrygginga dró mjög úr nýgengi örorku vegna stoðkerfisvanda og má ætla að það sama verði uppi á teningnum þegar stjórnvöld fjármagna loksins vilja Alþingis um að setja sálfræðiþjónustu inn í greiðsluþátttökukerfið. En það hafa þau ekki treyst sér til heldur lögðu til fjárhæð sem samsvarar einu íbúðarverði á Hafnartorgi í þessa lífsnauðsynlegu þjónustu.

Við eigum heimsmet í geðlyfjanotkun og aukning notkunar hjá börnum er sérstakt áhyggjuefni. Sjálfsvígum hefur fjölgað töluvert og eru þar yngstu aldurshóparnir í sérstökum áhættuhópi. Húsakostur þeirra tveggja sjúkrahúsa sem hýsa geðdeildir er svo gjörsamlega óboðlegur að enginn skilur hvernig stjórnendum heilbrigðismála dettur í hug að fólk nái bata þar inni. Það er ekki laust við að maður spyrji hvort fordómar gagnvart þessari tegund heilsubrests sé um að kenna þegar þessi sjúklingahópur á lítinn og jafnvel engan kost að njóta útivistar eða dvalar í fallegu uppbyggilegu umhverfi í takt við nútíma áherslur.

Æviágrip á vef Alþingis

Smelltu hér til að skoða æviágrip á vef Alþingis
Opna

Fylgstu með

Skráðu þig á póstlistann hjá mér og fylgstu með þeim málefnum sem ég er að vinna að hverju sinni.
Skrá mig
linkedin facebook pinterest youtube rss twitter instagram facebook-blank rss-blank linkedin-blank pinterest youtube twitter instagram