Í átt að daglegu lífi án takmarkana.

Síðustu tvö ár hafa verið í meira lagi sérstök. Kórónaveirufaraldurinn hefur sent okkur inn í daglegt líf sem okkur óraði ekki fyrir. Fjarvinna og fjarnám, grímuskylda og sótthreinsun. En líka daglegt líf án félagslífs og skólahalds fyrir börn og ungt fólk. 

„Við þurfum bara að læra að lifa með veirunni“. Við hér á Íslandi erum heppin með það að staða bólusetninga er mjög góð, almenningur svaraði kalli um að mæta í bólusetningar á heilsugæslustöðvar um allt land og í Laugardalshöll og aðrar stórar byggingar, brettum upp ermi og létum sprauta. Þannig erum við nálægt heimsmeti í bólusetningu almennings yfir 15 ára og getum hrósað okkur fyrir það þó að bólusetningin dugi ekki sem fullkomin vörn gegn smiti.

En við þurfum, þrátt fyrir hættu á smiti, að nálgast hið daglega líf eins og frekast er unnt því hættan af því að fara inn í þriðja vetur skerts skóla- og frístundastarfs fyrir ungt fólk getur haft mun langvinnari afleiðingar en faraldurinn sjálfur. Við þurfum þess vegna að leita allra mögulegra leiða til að skólastarf á öllum skólastigum geti verið með sem eðlilegustum hætti. Við þurfum líka að gera allt sem við getum til að menningar- og íþróttastarf geti verið með sem eðlilegustum hætti. Allt í þágu geðheilsu þjóðar og þroska barna og ungmenna. Það er ekki léttvægt verkefni en lífsnauðsynlegt.

Víðs vegar um heim, meðal annars í nágrannaríkjum okkar, er verið að nota svokölluð hraðpróf sem nokkurs konar aðgöngumiða inn í skóla, vinnustaði og á viðburði. Hraðprófin eru þó helst notuð fyrir þau sem eru óbólusett en einnig hin bólusettu þar sem reynslan sýnir að bólusettir geta smitast og smitað þrátt fyrir að veikjast síður alvarlega. Víða í Evrópu þarf að framvísa niðurstöðu hraðprófs vikulega, jafnvel nokkrum sinnum í viku til að mæta til vinnu á heilbrigðisstofnunum, skólum, menningarstofnunum og framhalds- og háskólanemar  framvísa hraðprófi til að fá að sækja tíma í skólastofu en ekki bara á netinu. Það að fá að hitta samnemendur er ekki síður hluti af náminu og í þessum ríkjum virðist ríkja mikill skilningur á því.

Við þurfum að stíga næsta skref til að lifa með veirunni. Hraðprófin eru ýmist afhent án endurgjalds á ýmsum stöðum, send heim til almennings eða seld á lágmarksverði þannig að enginn þarf að neita sér um slíka notkun.

Sóttvarnarlæknir lýsti því yfir á dögunum að hraðpróf kæmi ekki í staðinn fyrir sóttkví, enda gerir enginn ráð fyrir því, en gæti komið í veg fyrir hópsmit ef einhver greinist í hraðprófi sem ella mætti til skóla eða vinnu. Hraðprófin geta hjálpað okkur að ná því sem næst eðlilegu lífi til að koma í veg fyrir langvarandi afleiðingar þeirra takmarkana sem við höfum búið við frá því í mars 2020. 

Æviágrip á vef Alþingis

Smelltu hér til að skoða æviágrip á vef Alþingis
Opna

Fylgstu með

Skráðu þig á póstlistann hjá mér og fylgstu með þeim málefnum sem ég er að vinna að hverju sinni.
Skrá mig
linkedin facebook pinterest youtube rss twitter instagram facebook-blank rss-blank linkedin-blank pinterest youtube twitter instagram