Í fréttum er þetta helst

Vikan hefur verið tíðindamikil í íslensku þjóðlífi. Kórónaveiran er áfram að hamla okkar daglega lífi með tilheyrandi ofálagi á heilbrigðiskerfinu, sér í lagi Landspítala. Þá bárust tíðindi ofan úr Seðlabanka sem hækkaði stýrivexti, viðbrögð verkalýðshreyfingarinnar við því voru að benda á kjararýrnun alls almennings við slíkar gjörðir og fyrirheit gefin um komandi kjarabaráttu.

Nú eru rúmlega fimm mánuðir síðan að Alþingi kom síðast saman. Verkefnin sem bíða nýrrar ríkisstjórnar og Alþingis hrannast upp meðan beðið er eftir áframhaldandi ríkisstjórn og stjórnarsáttmála Vinstri grænna, Sjálfstæðisflokks og Framsóknar. Verkefnin lúta meðal annars að efnahagsmálum, velferðarmálum, heilbrigðismálum og þjóðaröryggi.

Ef litið er á fréttir undanfarinnar viku þá er ekki laust við að nokkur uggur læðist að. Frést hefur að stjórnarsáttmáli komandi ríkisstjórnar muni ekki taka á stærsta viðfangsefni 21. aldarinnar, loftslags- og umhverfismálum né heldur að stór ágreiningsefni, sem ekki tókst að leiða til lykta á síðasta kjörtímabili, nái inn í sáttmálann. Stjórnarflokkarnir munu þannig áfram, hver í sínu lagi, þurfa að reiða sig á stuðning stjórnarandstöðuflokkanna í einstaka málum enda stjórnarflokkarnir þrír ósammála í grundvallarmálum.

Í vikunni bárust einnig endurteknar fréttir um hættuástand í heilbrigðiskerfinu og algjöra vangetu stjórnvalda til þess nauðsynlega verks að fjölga hjúkrunarrýmum. Þetta ástand verður ekki leyst til langframa á einu augabragði en það er alveg ljóst að ríkisstjórnin getur ekki sleppt því að bregðast strax við með tímabundnum aðgerðum. Hvort tveggja loftslagsmál sem og heilbrigðismál eiga það sameiginlegt þau verða ólíklega leyst til lengri tíma með ríkisstjórn við stjórnvölinn sem er ósammála í grundvallaratriðum. Þetta birtist í því að við sem rík vestræn þjóð leggjum ekkert nýtt til þegar kemur að lausn á bráða- og langtímavanda í heilbrigðiskerfinu og sýnum jafnframt einstakt metnaðarleysi á loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna sem fram fór í Glasgow á dögunum. Engin umræða virðist vera innan stjórnarflokkanna um þessi verkefni því hvorki má heyra neitt frá sitjandi umhverfisráðherra, sem kvaðst án umboðs á ráðstefnunni, né sitjandi heilbrigðisráðherra í þeim ólgusjó sem Landspítali er í. Þau, líkt og aðrir, bíða nýrrar ríkisstjórnar og þeirrar stefnu sem formennirnir þrír sitja nú við að smíða.

Alþingi hefur ríku eftirlitshlutverki að gegna og þarf því að koma saman án frekari tafa. Niðurstaða undirbúningskjörbréfanefndar er komin og okkur því ekkert að vanbúnaði að hefja þingstörf, hvort sem uppkosning þarf að fara fram eða ekki. Við skuldum okkar vinnuveitendum það að hefja störf, því til þess vorum við kosin.

Æviágrip á vef Alþingis

Smelltu hér til að skoða æviágrip á vef Alþingis
Opna

Fylgstu með

Skráðu þig á póstlistann hjá mér og fylgstu með þeim málefnum sem ég er að vinna að hverju sinni.
Skrá mig
linkedin facebook pinterest youtube rss twitter instagram facebook-blank rss-blank linkedin-blank pinterest youtube twitter instagram