Jöfnum bilið í skólakerfinu

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 12. janúar 2021

Við upphaf vorþings leggjum við í Samfylkingunni fram tillögu þar sem menntamálaráðherra verður falið að gera tímasetta og fjármagnaða aðgerðaáætlun til fjögurra ára til að styrkja stöðu drengja í menntakerfinu. Leggjum við til að ráðherra hafi við þessa áætlun sína víðtækt samráð við fjölmarga hagaðila um hvernig laga megi þá stöðu sem nú blasir við. Lausnin er ekki einföld en staðan er alvarleg. Vandi drengja í menntakerfinu er ein stærsta áskorun sem við stöndum frammi fyrir í menntakerfinu því drengjum gengur einfaldlega verr í skóla en stúlkum, brottfall þeirra er meira og hátt hlutfall drengja mælist með lélega lestrarkunnáttu alla skólagönguna. Hin alþjóðlega Pisa könnunin sem reglulega er lögð fyrir nemendur um allan heim sýnir að hlutfall nemenda sem ná ekki grunnhæfni í lesskilningi í könnun ársins 2018 eykst úr 22% í 26% milli kannana. Hjá drengjum eykst hlutfallið úr 29% í 34% sem þýðir að einn af hverjum þremur drengjum les ekki til gagns. Drengir virðast ekki jafn vel undirbúnir og stúlkur undir hefðbundnið framhaldsskólanám að loknum grunnskóla og mun lægra hlutfall karla en kvenna nær að ljúka háskólaprófi. Allt birtist þetta okkur í tölum um brottfall úr framhaldsskólum, sem er umtalsvert meira á Íslandi en á Norðurlöndunum, útskriftartölum úr framhaldsskólum og tölfræðilegum upplýsingum frá háskólum landsins.

En er þetta ný staða sem þarf að hafa áhyggjur af. Já, því miður þá virðist svo vera því árið 1975 var kynjahlutfall þeirra sem luku stúdentsprófi jafnt. Árið 2018 var hlutfallið hins vegar 60% konur og 40% karlar. Þegar tölur um þá sem ljúka námi í háskóla eru skoðaðar eykst munurinn enn frekar. Árið 1973 voru 76% þeirra sem luku háskólaprófi karlar, árið 1985 hafði sú jákvæða þróun átt sér stað að hlutfall kynjanna var jafnt en í dag er staðan sú að einungis 34% þeirra sem ljúka háskólaprófi eru karlar. Það er ljóst að einhverstaðar er pottur brotinn og nauðsynlegt er að ráðast í aðgerðir til þess að bæta stöðu drengja í menntakerfinu. Ég leyfi mér að fullyrða að væri staðan öfug, þannig að einungis 34% nemenda sem lykju háskólaprófi væru konur þá væru hér rauð flögg um allt stjórnkerfið.

Jafnréttismálin mega aldrei gleymast. Það að misræmi verði á menntunarstigi kynjanna skapar verulegan og víðtækan ójöfnuð um allt samfélagið sem bitnar á öllum stigum, stofnunum og stoðum samfélagsins. Okkur ber samfélagsleg skylda til að ráðast í átak og skoða rót vandans. Líðan, aðbúnað, uppbyggingu náms og aðferðir. Í tillögu Samfylkingarinnar, sem getið var hér í upphafi er því lagt til að menntamálaráðherra verði falið að hefja þessa vinnu sem standi markvisst næstu fjögur árin. Það þarf að bregðast við áður en skaðinn verður meiri.

Æviágrip á vef Alþingis

Smelltu hér til að skoða æviágrip á vef Alþingis
Opna

Fylgstu með

Skráðu þig á póstlistann hjá mér og fylgstu með þeim málefnum sem ég er að vinna að hverju sinni.
Skrá mig
linkedin facebook pinterest youtube rss twitter instagram facebook-blank rss-blank linkedin-blank pinterest youtube twitter instagram