Kerfi sem virkar ekki er pólitísk ákvörðun

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 6. október 2020

Í síðustu viku bárust þær fregnir úr heilbrigðisráðuneytinu að 1.193 börn um allt land bíði eftir greiningu og meðferð við geðrænum vanda. 107 börn bíða eftir greiningu og meðferð á unglingageðdeild Landspítala, BUGL, og níu börn bíða innlagnar á þessa sömu deild. Bið barna eftir sálfræði- og geðþjónustu um allt land er því miður vísbending um að átak stjórnvalda í geðheilbrigðisþjónustu sé alls ekki að skila sér til þeirra sem helst þurfa á að halda. Börn eiga vegna sérstaklega viðkvæmrar stöðu sinnar að vera í algjörum forgangi hjá stjórnvöldum enda getur viðbragðsleysið haft afgerandi áhrif út ævina. Þá eru 19 þolendur kynferðisofbeldis á barnsaldri að bíða nauðsynlegrar áfallameðferðar í Barnahúsi. Þeir sem þekkja til slíkra mála vita að hver dagur í lífi barns sem bíður meðferðar eftir slíkt ofbeldi er sem heill mánuður í lífi fullorðins einstaklings. Kynferðisofbeldi gegn börnum er í flestum tilvikum framið af einhverjum í nærumhverfi barns og því er það ekki bara barnið eitt sem þjáist heldur fjölskyldan öll og því nauðsynlegt að grípa strax inn í og veita hjálp.

Í nýrri skýrslu UNICEF um stöðu barna í 38 efnameiri ríkjum heims lenda íslensk börn í 24. sæti af 38. Skilaboð UNICEF eru skýr; efnameiri ríki heims verða að grípa til tafarlausra umbóta ef tryggja á öllum börnum jafna möguleika á góðu lífi. Fyrir of mörg börn ógnar fátækt, ójöfnuður og mengun andlegri og líkamlegri vellíðan barna. Í skýrslunni kemur einnig fram að mörg af efnameiri ríkjum heims hafi þau úrræði og þjónustu sem þurfi til að veita börnum tækifæri til að þróa hæfileika sína en séu ekki að framfylgja sínum stefnum til að ná til allra barna og þar sé Ísland bersýnilega ekki undanskilið. Staða íslenskra barna mælist svona slök þegar tekið er tillit til geðrænnar og líkamlegrar heilsu, náms og félagsfærni. Skýrsla UNICEF sýnir að sjálfsvíg í aldurshópnum 15-19 ára eru með því mesta hér á landi miðað við samanburðarlönd, eða 9,7% allra sjálfsvíga. 13 börn á aldrinum 15-18 ára féllu fyrir eigin hendi á árunum 2014 til 2019 og þar verður að fara í stórátak í geðþjónustu sem og forvarnastarfi til að bregðast við þessu. Þar þarf þor og kraft stjórnvalda.

Íslensk stjórnvöld segjast hafa vilja til að efla geðheilbrigðisþjónustu á landinu en þegar staðreyndirnar liggja fyrir um nærri 1200 börn sem bíða nauðsynlegrar geðheilbrigðisþjónustu rímar það fullkomlega við það sem fram kemur í skýrslu UNICEF. Það dugar skammt að tala um að vilja efla kerfi ef ekki er unnið markvisst í því með útfærslu og útdeilingu fjármuna. Biðlistar eru ekki náttúrulögmál heldur pólitísk ákvörðun um að fjármagna ekki og manna með fullnægjandi hætti nauðsynleg verkefni. Stjórnvöld verða að gera betur.

Æviágrip á vef Alþingis

Smelltu hér til að skoða æviágrip á vef Alþingis
Opna

Fylgstu með

Skráðu þig á póstlistann hjá mér og fylgstu með þeim málefnum sem ég er að vinna að hverju sinni.
Skrá mig
linkedin facebook pinterest youtube rss twitter instagram facebook-blank rss-blank linkedin-blank pinterest youtube twitter instagram